Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Nostalgía og gamlar minningar af Miðnesheiðinni
  • Nostalgía og gamlar minningar af Miðnesheiðinni
Mánudagur 25. ágúst 2014 kl. 09:38

Nostalgía og gamlar minningar af Miðnesheiðinni

– á hátíðartónleikum Ljósanætur í Andrews á Ásbrú

Nú er kominn tími á að kanaútvarpinu verði gerð skil á sérstökum tónleikum því
undirbúningur er nú hafinn að hátíðartónleikum Ljósanætur, Með blik í auga, sem fluttir hafa verið fyrir fullu húsi í Andrews leikhúsinu á Ásbrú undanfarin ár og eru orðnir ómissandi hluti af bæjarhátíðinni.
Dagskráin verður byggð upp með svipuðum hætti og áður. Sögur verða sagðar í bland við góða tónlist en eins og fyrr þá eru það þeir félagar Arnór Vilbergsson, Guðbrandur Einarsson og Kristján Jóhannsson sem fara fyrir vöskum hópi listamanna sem ekki eru af verri endanum.

Söngvarar eru Matti Matt, Sverrir Bergmann, Bjarni Ara og Regína Ósk. Þá mun 10 manna hljómsveit sjá til þess að áhrifin skili sér beint til áhorfenda.

Kristján Jóhannsson er sögumaður tónleikanna. Víkurfréttir ræddu við hann um komandi hátíðartónleika.

„Þetta er bara svo skemmtilegt verkefni að við höldum alltaf áfram og til hvers að hætta þegar þetta er ennþá skemmtilegt. Nú ætlum við að halda áfram með Blik í auga og eins og góður maður sagði, þá hættum við að setja tölustaf fyrir aftan og köllum þetta bara „Með blik í auga, Keflavík og kanaútvarpið“.

– Og hvert stefnið þið þar?
„Afturábak eins og alltaf. Við erum alltaf að reyna að rifja upp þessa nostalgíu og gömlu minningarnar. Hvað er nú meira suðurnesískt eða keflvískt en kanaútvarpið gamla sem allir sem komnir eru af léttasta skeiði muna eftir. Þetta er orðið blik í minningunni, Keflavík og kanaútvarpið. Við sem vorum að þræla okkur á AM á útvarpinu sem er úrelt í dag og enginn veit lengur hvað AM var, þekkjum kanaútvarpið. Þetta var fyrirbrigði sem náðist víða um SV-hornið“.

– Tónlistarmenn sóttu innblástur í kanaútvarpið.
„Heldur betur. Á þessar útvarpsstöð heyrði maður lög sem Útvarp Reykjavík var ekki að spila nema í mjög afmörkuðum þáttum. Þetta fylgdi hernum fljótlega eftir að hann settist að hér á Miðnesheiðinni 1952 og þróaðist í þá veru að vera ein aðal útvarpsstöðin hér fyrir sunnan á ákveðnu tímabili. Þarna voru frægir bandarískir útvarpsmenn, Wolfman Jack, Charlie Tuna, Casey Kasem, American Top 40 og lengi mætti telja“.

– Hvað af þessari tónlist ætlið þið að taka inn í þessa fjórðu uppfærslu ykkar af Með blik í auga?
„Nú er það alltaf hernaðarleyndarmál þar til kemur að tónleikunum sjálfum en í þetta skiptið erum við með erlenda tónlist. Við höfum verið með íslenska tónlist í þremur fyrstu uppfærslunum, en nú tökum við erlenda tónlist. Ég get þó sagt að við byrjum í kringum Bítla og Rolling Stones og endum einhverstaðar í diskótímabilinu“.

Frumsýning Mið blik í auga, Keflavík og kanaútvarpið, verður í Andrews leikhúsinu miðvikudaginn 3. september og tvær sýningar verða haldnar sunnudaginn 7. september. Miðasala verður á midi.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024