Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Norskur þjóðarréttur í uppáhaldi hjá Guðjóni
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 29. ágúst 2020 kl. 09:14

Norskur þjóðarréttur í uppáhaldi hjá Guðjóni

Gönguferðir voru á dagskrá Guðjóns Skúlasonar á ferðalögum hans innanlands í sumar. Hann fór í gönguferðir á Austurlandi, heimsótti nafnkunna ferðamannastaði og lék golf víðsvegar um landið. Guðjón segir árið 2020 vera sérstakasta ár sem hann hafi upplifað „... og í raun 2019 líka. Ég er í þannig starfi að niðursveiflan hefur verið stanslaus síðan að WOW féll og atvinnuástandið óstöðugt. 2020 er eitthvað sem maður á væntanlega eftir að rifja upp sem erfiðasta ár á flugtengdum rekstri og ár breytinganna og endalausra hagræðinga sem því miður eru oftar en ekki tengd starfsfólki,“ segir Guðjón m.a. í Netspjalli við Víkurfréttir í þessari viku.

– Nafn:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðjón Skúlason.

– Árgangur:

1967.

– Fjölskylduhagir:

Giftur Ólöfu Einarsdóttur, börnin eru Hilmir Gauti, Gígja og hundurinn Plútó.

– Búseta:

Langholt 17, 230 Reykjanesbæ.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Móðir mín er Grethe Wibeke Iversen, fyrrverandi starfsmaður Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, hún er norsk en fluttist til Íslands árið 1965 og gerðist flugfreyja hjá Loftleiðum. Faðir minn er Skúli Guðjónsson, fyrrverandi flugstjóri hjá Loftleiðum og Icelandair. Ég er alin upp í Keflavík og hef búið hér alla tíð, utan tveggja ára í Bandaríkjunum, og er núna búsettur í húsinu sem foreldrar mínu byggðu á Langholtinu sem ég tel nú eina fallegustu götu bæjarins.

– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?

Innanlands, byrjaði á að sækja eiginkonuna á Borgarfjörð Eystri þar sem hún gekk á fjöll í fjóra daga, göngutúr um Loðmundarfjörð, göngutúr í Stórurð sem er eitt fallegasta svæði sem ég hef séð á Íslandi, farið í Stuðlagil, síðan í Reynisfjöru, Jökulsárlón skoðað, farið að Svartafossi í Skaftafelli, kíkt á flakið á Sólheimasandi.

– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?

Bæði og.

– Hvaða staður fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?

Borgarfjörður Eystri, Stórurð, Stuðlagil og Reynisfjara.

– Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Fegurð Stórurðar.

– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?

Nei, er ekki fastur við einn stað og finnst alltaf jafn gaman að sjá nýja fallega staði á þessu landi. Pabbi á bústað við Langá og þar er alltaf gott að vera þó ég hafi ekki verið mikið þar í sumar.

– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?

Ekkert skipulagt en hugsanlega stuttur túr á Snæfellsnesið.

– Hvert er þitt helsta áhugamál?

Velferð fjölskyldunnar, golf er mikið áhugamál þessa dagana, garðurinn og húsið og hundurinn fær sinn skerf að öllum tímanum. Hef áhuga á körfubolta en fylgist bara með úr fjarska þessa dagana.

– Ertu að sinna áhugamálum eins og þú vildir?

Já, tel mig ná að sameina þetta allt eins vel og hægt er. Börnin blómstra. Er búinn að spila á Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Vík í Mýrdal, Flúðum, Hellu, Öndverðarnesi, Laugarvatni, Mosfellsbæ, Keili í Hafnarfirði, Grindavík, Sandgerði og að sjálfsögðu í Leirunni. Garðurinn fallegur og berin líta vel út (rifs-, sól- og stikilsber), þannig að maður er að ná að sinna garðverkefnum líka.

– Hvernig slakarðu á?

Í gönguferðum með hundinn, í golfi og í góðra vina hópi þar sem gert er vel við sig í mat og drykk.

– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?

Allur grillmatur fer nú vel niður en uppáhaldið er norskur þjóðarréttur sem heitir „Ribbe“ eða „Pinnekjött“. Í fljótu bragði er þetta saltaður lambaskrokkur án læra, látin hanga í tvo mánuði, sagað í löng rif, útvatnað og gufusoðið á birkikubbum og borið fram með soðnum kartöflum, rófustöppu, bjór og snafs, mjög einfalt og gott um hver áramót á Langholti 17.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Matthew Santos er í miklu uppáhaldi en annars er ég alæta á tónlist en skora á alla að kynna sér MA / SA, sérstaklega plöturnar This Burning Ship of Fools, Quickly Disappearing og Into The Further. Prefab Sprout hafa líka alltaf verið ofarlega á lista ásamt Jeff Buckley sem féll frá allt of snemma.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Horfi á íslensku stöðvarnar, Netflix og aðrar streymisveitur.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Reyni að horfa á fréttir og veðurfréttir ásamt íþróttum líðandi stundar.

– Besta kvikmyndin?

Semi Pro, Top Secret og grínmyndir yfir höfuð, annars ekki krítískur á bíómyndir.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Þetta verða aðrir að dæma um.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Óstundvísi er að mér finnst óþarfi.

– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:

Allt svona meinhægt.

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Man eftir því að afi minn frá Noregi kom í heimsókn árið 1970 og við eyddum mörgum tímum í að sparka á milli út í garði og hann var alltaf á því að ég ætti að leggja fyrir mig fótbolta en mér leið betur inni í íþróttahúsi og valdi því körfuna.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Best að spyrja konuna um þetta að ég held.

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

3! Þetta er væntanlega tilvitnun í körfuboltaferilinn en er opin fyrir krassandi titlum á þessari metsölubók.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Eitt sérstakasta ár sem ég hef upplifað og í raun 2019 líka, er í þannig starfi að niðursveiflan hefur verið stanslaus síðan að WOW féll og atvinnuástandið óstöðugt. 2020 er eitthvað sem maður á væntanlega eftir að rifja upp sem erfiðasta ár á flugtengdum rekstri og ár breytinganna og endalausra hagræðinga sem því miður eru oftar en ekki tengd starfsfólki.

– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?

Ekki of bjartsýnn á atvinnuástandið og hvað á að koma landinu til bjargar úr þessari „kreppu“ oft talað um að hafa fleiri körfur undir eggin okkar en það er ekki auðvelt í framkvæmd á okkar svæði. Við búum á frábærum stað sem hefur upp á allt að bjóða en heildarsýnin þarf að vera sterkt og til langs tíma.

– Hver er besti brandari sem þú hefur heyrt nýlega?

Man ekki eftir einhverjum sem stendur upp úr, margir fimm aurar sem fljúga daglega.

Sjáið myndasafn hér að neðan úr ferðalögum sumarsins!

Ferðast innanlands með Guðjóni Skúlasyni