Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 8. apríl 2003 kl. 13:41

Norsk lúðrasveit heimsækir Reykjanesbæ

Oslo Youth Representation Band, ein besta skólahljómsveit Noregs heimsækir Ísland dagana 13. – 18. apríl 2003. Sveitin verður í Reykjanesbæ þriðjudaginn 15. apríl kl. 19:30 í Kirkjulundi. Missið ekki af þessum tónleikum. Í hljómsveitinni eru 58 ungir hljóðfæraleikarar sem allir eru félagar í einhverjum hinna 86 skólahljómsveita í Osló. Þeir eru meðal þeirra bestu og metnaðarfyllstu í allri borginni og telst hljómsveitin vera í mjög háum gæðaflokki. Hljómsveitin er styrkt af Norska Lúðrasveitasambandinu, listrænn stjórnandi hennar er Dr. Sissel Larsen og hljómsveitarstjóri er Dag Yngve Torkildsen.Löng hefð er fyrir úrvalssveit Oslóarborgar þó þeir hljóðfæraleikarar sem heimsækja Ísland að þessu sinni hafi einungis leikið saman í eitt ár. Fyrir þremur árum var hljómsveitin endurskipulögð frá grunni og hún stækkuð úr 40 manna hljómsveit í sveit sem telur um 60 hljóðfæraleikara hverju sinni. Hljóðfæraleikararnir halda sæti sínu í sveitinni í eitt ár í senn og á hverju ári fer fram prufuspil þar sem áhugasamir hljóðfæraleikarar keppa um stöður í sveitinni. Með þessu er tryggt að á hverju ári séu ávallt bestu hljóðfæraleikarar í sveitinni sem völ er á og hljómsveitin eflist með hverju ári.
Hljómsveitin kemur saman fjórum sinnum á ári og heldur að jafnaði þrenna tónleika á heimaslóðum. Á síðasta ári voru tónleikarnir teknir upp og gefnir út á geisladiski.
Þau fara einnig í tónleikaferðir erlendis á hverju ári. Árið 2001 var hljómsveitin í New York og hélt fimm tónleika, m.a. á torgi Sameinuðu Þjóðanna. Árið 2002 var hljómsveitin í Þýskalandi og Hollandi þar sem þau heimsóttu m.a. tónlistarháskólann í Utrecht. Sú heimsókn varð til þess að einn hljóðfæraleikari sveitarinnar er nú við nám þar.

Nú heimsækja þau Ísland og halda tvenna tónleika hér auk þess að leika fyrir messu í Hallgrímskirkju á skírdag. Tónleikarnir verða í Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 15. apríl og í Seltjarnarneskirkju miðvikudaginn 16. apríl. Tónleikarnir hefjast kl. 19.30 báða dagana.

Efnisskráin er fjölbreytt. M.a. verður boðið upp á söngleikjatónlist, frumsamda tónlist fyrir blásarasveitir og umritun á tónverki eftir norska tónskáldið Edward Grieg. Einnig munu félagar í sveitinni leika einleik á tónleikunum.

Tónleikarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.


Nánari upplýsingar veitir Össur Geirsson í síma 864-6111.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024