Norðurljósaáhugamaðurinn á Garðskaga
Jóhann Ísberg hefur starfað að ferðamálum í Garðinum í fimm ár, rekið veitingastaðinn Röstina og haldið utan um vitana á Garðaskaga. Jóhann rak byggðasafnið þar til 1. september síðastliðinn en nýráðinn menningarfulltrúi Suðurnesjabæjar hefur nú tekið við umsjón þess.
Jóhann hefur lengi starfað við ljósmyndun og lagt áherslu á ljós- og kvikmyndun norðurljósanna. Vitarnir á Garðaskaga eru vinsæll áningarstaður áhugafólks og ljósmyndara þegar kemur að norðurljósunum þar sem þeir eru fallegir í forgrunninn og skýjafarsaðstæður eru oft góðar.
Norðurljósasýning í stóra vitanum og kaffihús í gamla vitanum
Í stóra vitanum eru tvær sýningar. Annars vegar norðurljósasýning sem Jóhann hefur búið til þar sem hann sýnir ferðamönnum hvernig norðurljósin verða til og hegða sér með skýringarmyndum og myndefni af ljósunum. Á þriðju hæðinni í vitanum er hvalasýning sem byggir á teikningum Jóns Baldurs Hlíðbergs auk upplýsinga um útbreiðslu þeirra, tegundir o.fl. Síðan er hægt að fara upp á topp vitans og virða fyrir sér útsýnið frá honum, nokkuð sem ferðamönnum finnst magnað að upplifa að sögn Jóhanns. Jóhann man eftir erlendu pari sem vildi fara upp á toppinn í brjáluðu veðri og fannst þeim upplifunin mögnuð þó að þau hafi skriðið hringinn í kringum vitaljósið en ekki þorað að standa upp.
Fyrir Covid var hann með kaffihús í gamla vitanum yfir sumartímann og er aldrei að vita nema það fari aftur að stað næsta sumar. Jóhann tók á sínum tíma gamla vitann alveg í gegn en töluvert þurfti til svo hægt væri að opna hann fyrir fólki.
Vitarnir draga að sér fólk sem vill mynda norðurljósin og býður Jóhann upp á þjónustu fyrir það fólk með því að bjóða upp á salernisaðstöðu og jafnvel að dimma ljósin. Hérna á þessari heimasíðu er síðan hægt að sjá lifandi myndefni og hugsanlega virkni norðurljósana frá vitunum og fleiri stöðum á Íslandi - https://liveauroranetwork.com
Þríburarnir
Jóhann sagði mér frá því að vitarnir á Garðskaga eigi sér systkini en á Akranesi og á Gróttu eru áþekkir vitar sem voru byggðir á svipuðum tíma og draga að sér ferðamenn.
Þetta er allt að koma
„Síðasta sumar var fínt, það eru mest erlendir ferðamenn sem koma til mín á veitingastaðinn. Aðsóknin var alveg glötuð í upphafi þessa árs vegna Covid, fór hins vegar aðeins að lagast í maí og sumarið var síðan mjög gott. Eldgosið er örugglega að hafa einhver áhrif á ferðavenjur ferðamanna sem koma núna víðar við um Suðurnesin og Reykjanesið,“ sagði Jóhann. Hvort sem gosið er búið núna eða ekki en þá kemur það til með að draga að ferðamenn í nokkur ár.
Fólk vill vita hvar vegurinn endar og hvað er við enda hans
Það er mikil umferð fólks hér að vitunum og fjörunni og Jóhann hefur þá kenningu að það búi landkönnuður í okkur öllum sem vill vita hvað er við enda vegsins sem það keyrir og finnur það síðan að hér eru einhverjir töfrar að mati Jóhanns. Frá veitingastaðnum er gott útsýni yfir Faxaflóann og gerist það mjög oft yfir sumartímann að hvalir sjáist mjög vel. Jóhann segir það gerast reglulega að erlendir ferðamenn reki upp hrifningaröskur þegar hvalirnir sjáist stundum Íslendingum til mikilla furðu „Hefur þetta fólk aldrei séð hvali?“ hafi ein eldri kona haft að orði þegar fólk stóð yfir gluggaborðinu hennar og horfði hugfangið á hvalina leika sér fyrir utan. Jóhann segir að fuglalífið sé einnig mjög fjölbreytt hér og dragi að áhugamenn og ljósmyndara um fugla. Hérna er aðgengi að fjörunni og sjónum mjög gott og hentar því öllum aldurshópum.
„Það væri gaman að sjá endurbætur á umhverfinu hérna, laga planið, helluleggja og afmarka grónu svæðin. Setja þetta svæði í ákveðin stíl sem hentar umhverfinu og byggingunum. Staðurinn fengi þannig þá virðingu sem hann á skilið í huga Suðurnesjabúa,“ sagði Jóhann Ísberg að lokum.