Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Norðmenn taka fríin sín hátíðlega
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 28. apríl 2020 kl. 08:00

Norðmenn taka fríin sín hátíðlega

Hafsteinn Kröyer Eiðsson býr með unnustu sinni, tveim stjúpbörnum og fjölskylduhundinum í einbýlisleiguhúsnæði í bænum Sandnes sem er samliggjandi við bæinn Stavanger í Rogalandsfylki í Noregi. Hafsteinn starfar sem vöruflutningabílstjóri hjá matvælavörudreifingarfyrirtæki sem heitir Asko og dreifir matvörum í stóran hluta af öllum matvöruverslanakeðjum í Noregi.

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég við fluttum frá Keflavík til Noregs um sumarið 2015 vegna þess að okkur þótti orðið of dýrt fyrir okkur að búa á Íslandi. Sem dæmi er lágt leiguverð á Íslandi að slá upp í heil meðalmánaðarlaun á meðan hér er það um eða undir hálfum mánaðarlaunum. Auðvitað ekki almennt kannski en þetta er mín reynsla. Svo skemmir ekki að fá betra sumarveður.“


– Var erfið ákvörðun að söðla um og flytja í annað land?

„Það var ákveðið að flytja í lok febrúar 2015 og ætluðum við að nota eitt ár í undirbúning en ég var farinn út með fullan skutbíl af dóti í lok júní sama ár og fjölskyldan fylgdi svo eftir í lok ágúst.“

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

„Ég á dóttur á Íslandi sem ég sakna mest og auðvitað saknar maður vina og annarra ættingja.“

– Er eitthvað framandi sem hefur komið þér á óvart þar sem þú býrð núna?

„Hér í Noregi er matur voða svipaður og á Íslandi að mínu mati en það sem kom mest á óvart er hvað Norðmenn taka fríin sín hátíðlega. Allir hverfa upp í sumarbústaði við hvert tækifæri og bæirnir nánast tæmast.“

– Hve lengi hefurðu búið erlendis?

„Ég hef búið í Noregi síðan sumarið 2015 og alltaf verið í sama hverfinu í Sandnes – hér vil ég bara vera. Ég bjó reyndar áður í Noregi í tæpt ár 2004–2005 og í Danmörku frá 2008–2011.“

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

„Hér í Sandnes eru helstu kostir að það snjóar varla á veturna og þetta er smábæjarfílingur, þó er allt til alls hérna og stutt í skóga, fjöll og aðra fagra náttúru.“

– Hvernig er að vera með fjölskyldu og börn þarna?

„Finnst persónulega frábært að hafa fjölskyldu hérna en hef ekki verið án hennar heldur svo ég hef ekki hinn pólinn til að miða við.“

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Hefðbundinn dagur hjá mér er ekki til. Vinn ýmist dag eða kvöld og frúin einnig en vegna COVID-19--ástandsins er lítið gert annað en að vinna, labba með hundinn út í skóg og glápa á imbann. Kannski sóla sig ef vel viðrar eins og nú þegar þetta er sagt.“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Miðað við ástandið í samfélaginu um þessar mundir get ég bara ekki beðið eftir sumarfríi og góðviðrisdögum enda uppáhaldsárstíðin minn.“

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

„Hef í sjálfu sér of fá áhugamál. Áhugamálin koma og fara en ljósmyndum er eitthvað sem ég hef haft brennandi áhuga fyrir um áraraðir og það er ekki neitt sem mun hindra mig í að sinna því.“

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

„Ef hægt verður mun eitthvað vera keyrt um Suðvestur-Noreg en engin spes plön verið gerð um slíkt sökum COVID-19-ástandsins og planið, sem var sett fyrir krísuna, var eiginlega að taka því nokkuð rólega og taka með trompi sumarið 2021 með Evrópureisu eins og við gerðum í fyrra, enda bara æðislegt að geta sest upp í bíl heima hjá sér og keyrt þangað sem maður vill.“

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

„COVID-19-ástandið er ekki að gera neinn skandall hér í mínum heimabæ og allir voða rólegir yfir þessu. Þó er fólk voða duglegt að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um fjarlægðir milli fólks og þess háttar. Mikið er þó um áhyggjur vegna mikils atvinnuleysis sökum ástandsins að ég held.“

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

„Lítið breyst í tilverunni hér nema að fjölskyldan eyðir meiri tíma saman sem hefur bara verið jákvætt í okkar tilfelli.“

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

„Lærdómur sem allir geta lært af þessu er að allt getur gerst og margir lifa of mikið í eigin bubblu, óafvitandi að að heimurinn getur breyst í einni svipan. Gott er að vera með opinn huga um að aðstæður geta breyst í öllum heiminum nánast án fyrirvara. Bara skoða heimssöguna til að sjá slíkt og við erum sko ekkert stikkfrí á okkar tímum.“

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

„Venjulega nota ég bara símann og hringi í fólk. Nota þó videospjall á Messenger til að tala við dóttur mína á Íslandi.“

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

„Mundi hringja í móður mína ef ég fengi bara eitt símtal í dag. Ekki spurning.“

Sjáið myndskreytta umfjöllun í síðasta tölublaði Víkurfrétta með því að smella hér!