Norðfjörðurinn er alltaf fallegastur
segir Eysteinn Þór Kristinsson, nýráðinn skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur.
Eysteinn Þór Kristinsson er nýráðinn skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur en hann hefur alið manninn í Neskaupstað alla tíð. Er nú kominn í „heitasta“ bæjarfélagið á landinu og segist hafa fengið mjög góðar móttökur.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
„Sumarfríið að þessu einkenndist af þeim breytingum sem áttu sér stað hjá mér. Að ljúka störfum sem skólastjóri Nesskóla Neskaupstað, flytja búferlum milli landshluta og undirbúa mig fyrir nýtt og spennandi verkefni sem skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Ja ... kannski aðallega hversu vel mér hefur tekist að aðlagast nýjum aðstæðum og heimkynnum. Er fæddur og uppalinn í Neskaupstað, fyrir utan námsárin og eitt auka knattspyrnuár á Sauðárkróki hef ég búið þar alla ævi.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Ég er kannski svo skrýtinn en mér finnst uppeldisstöðvarnar og fyrrum heimahagar, Norðfjörðurinn, alltaf fallegastur. Hef gengið þar á alla fjallstoppa, eyðifirði og víkur.“
Hvernig hefur gengið að koma sér fyrir í Grindavík og hvernig líst þér á aðstæður í þessu „heita“ bæjarfélagi?
„Það hefur gengið vel að aðlagast nýjum stað. Ég byrjaði ásamt öðrum stjórnendum strax í byrjun ágúst og greinilegt að þar er öflugt teymi á ferð, aðra starfsmenn hitti ég síðan um miðjan ágúst er þeir byrjuðu að tínast inn. Mjög vel hefur verið tekið á móti mér og ljóst að þessi tæplega eitt hundrað manna vinnustaður býr yfir miklum mannauð.“
Hver er tilfinningin fyrir haustinu og komandi vetri?
„Ég er bjartsýnsmaður að eðlisfari og vona svo sannarlega að komandi skólaár verði okkur gott. Ég hef fulla trú á að veturinn verði mun uppbyggilegri og skemmtilegri en sá síðasti og hvað þá vorönnin sem var þar á undan.“
Hver eru stærstu málin í þínum skóla um þessar mundir?
„Stærsta mál Grunnskóla Grindavíkur er væntanlega nýbyggingarframkvæmdir þær sem eiga sér stað við Hópsskóla. Við vonumst til að taka nýtt húsnæði þar í notkun fljótlega í byrjun nýs árs. Nýja húsnæðið mun verða afar kærkomið fyrir aðstöðu yngstu nemenda skólans og starfsfólk þess stigs.“