Mannlíf

Nokkur kíló til stefnu - 26 þegar farin
Einar er er búinn að losa sig við tæp 26 kg, 72 cm af ummáli og 15 % af fitu.
Mánudagur 22. desember 2014 kl. 09:16

Nokkur kíló til stefnu - 26 þegar farin

Safnar fyrir Einstök börn með líkamsræktarátaki

Keflvíkingurinn Einar Skaftason hefur heldur betur staðið í ströngu undanfarna mánuði. Hann ákvað að taka sig á í mataræðinu og líkamsræktinni, en um leið ákvað hann að láta gott af sér leiða. Fyrir hvert kíló sem Einar missir renna peningar í sjóð Einstakra barna. Á hvert kíló ætlar hann sjálfur að gefa 1000 krónur. Vinir Einars ætla einnig að leggja málefninu lið og styrkja félagið. Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Öllum er frjálst að styrkja málefnið og hvetja Einar áfram í leiðinni.

Einar var mældur núna laust fyrir helgi og kom í ljós að hann er búinn að missa heil 26 kg síðan 17. júlí s.l.. Áskoruninni lýkur þann 17. janúar en markmið Einars er að komast undir 100 kg fyrir þann tíma. Hann er ansi nærri því núna en lokaspretturinn verður líklega erfiður.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Nú er tæpur mánuður til stefnu en ætlunin er að spýta vel í og klára síðasta mánuðinn með trompi, en auðvitað koma þarna erfiðir dagar inn í, svo sem jól og áramót. En upphaflegt markmið mitt var að losa 32 kg og er enn stefnt að þeirri þyngd. Hef fengið mikla hjálp frá mjög mörgum aðilum og finnst ég oft ekki standa einn í þessu sem er náttúrulega frábært,“ segir Einar.

„Þess má geta að ég hiitti unga móður með lítinn dreng sem tilheyrði þessum samtökum einstakra barna. Bara það eitt að fá þakklæti og viðurkenningu á því sem maður er að gera er ómetanlegt og var eins og ég hefði fengið fullan tank af orku og vilja bara við að hitta þau. Drengurinn ljómaði af gleði og hreinlega bræddi hjarta mitt. Það væri nú gaman ef að sem flestir myndu nú henda einhverri upphæð á þessa áskorun sem Friðrik Bergmannsson skoraði á mig,“ að lokum vildi Einar koma þökkum til allra þeirra sem hafa stutt hann og óskaði öllum gleðilegra jóla. „Við skulum aldrei gleyma því hvað við höfum það gott og ef fólk er aflögufært þá endilega réttið hjálparhönd svona í anda jólana,“ bætti Einar við.

Hægt er að leggja málefninu lið, en nálgast má frekari upplýsingar hér.