Nokkra metra frá ljónum á veiðum
Systkini úr Njarðvík, Hans Árnason og Arna Björg Árnadóttir fóru nýverið ásamt Örnu Dögg Tómasdóttur frá Ólafsvík til Afríku í sjálfboðastarf bæði til Mozambique og Simbabwe. Markmiðið með sjálfboðavinnunni er að fá sem fjölbreyttasta lífsreynslu og góða innsýn inn í líf íbúanna á svæðinu. Við höfum fengið sendan pistil frá þeim úr ferðalaginu en þau eru nú á leið til búða í Mozambique. Netsamband er takmarkað á þeim svæðum sem þau hafa verið á og illa gengur að senda ljósmyndir frá ferðalaginu. Þær verða því að bíða betri tíma.
Antelope Park
Það fyrsta sem við sáum fyrir okkur þegar Afríka var nefnd fyrir nokkru síðan var dýraríkið þar og auglýsingarnar með hungruðu börnunum með flugur í andlitinu. Nú þegar við höfum dvalið hér í tæpan mánuð höfum við lært að Afríka hefur svo miklu miklu meira upp á að bjóða. Menningin er óendanlega fjölbreytt (og hefur svo ólíkan grunn frá okkar menningu), fólkið er svo hlýlegt og jákvætt, fólk segir „halló, hvernig hefurðu það“ vid ókunnugt fólk sem það mætir og heilsar hér um bil öllum.
Við komum hingað 6. júní, vissum í raun lítið við hverju við áttum að búast, en nú þegar dvöl okkar hér í Antelope Park er hér um bil búin getum við sagt að allt hafi farið fram úr öllum væntingum.
Sannarlega er ástandið hérna í Zimbabwe hræðilegt, samt sem áður höfum við lítið fengið að finna fyrir því. Fyrir Íslending sem er vanur að vera örlítið einangraður frá þjóðarsál og atburðum heimsins þá er Antelope Park kjörinn staður til að vera á, þessi garður virkar sem verndarhylki, hann verndar okkur fyrir restinni af landinu. Hér erum við örugg fyrir áreiti frá flokkum Mugabe, hungurs og sjúkdómum. Við kynnumst ástandinu einungis í gegnum sögur frá starfsfólkinu.
En hverskonar garður er þetta? Þessi garður er hundruðir ekrur af villtu landsvæði, í öðrum endanum á garðinum höfum við svo aðstöðuna okkar sem minnir svo lítið á bæði sumarbúðir og stórt tjaldsvæði. Hér eru rekin sérstaklega falleg gistihús ásamt því að hér eru tjaldsvæði og pláss fyrir húsbíla, viðskiptavinir hafa svo völ á ýmisskonar afþreyingum meðan á dvöl þeirra stendur, svo sem að fara í göngutúr með ljónum og fílum, fara á hestbak og fílsbak, fara a kano á vatninu hérna, veiða fisk og margt fleira. Þessi gistihús eru rekin af stofnun sem kallar sig ALERT, eða African Lion reasurch trust, en markmið hennar er að byggja upp ljónastofninn sem hefur hrunið gífurlega hratt á undanförnum 30 árum. Aðferðir þeirra til að ná þessu markmiði eru sérstakar, þau taka ljónsungana frá mæðrum sínum um 3 vikna aldur og ala þá upp í kringum menn, svo er farið með þá í göngutúra á sléttunni 2. á dag þar til þeir eru að verða 2ja ára (misjafnt eftir hegðun ljónanna) til að kynna fyrir þeim náttúruna og leifa þeim að æfa sig í að veiða. Þegar ljónsungarnir svo eru komnir með aldur er þeim sleppt í stóra girðingu þar sem þeir læra að sjá um sig alveg sjálfir og ef það gengur vel er þeim sleppt í enn stærra landsvæði þar sem þeir eru einnig kynntir fyrir samkeppnistegundum eins og t.d. Hyenum. Svo eru þeir ljónsungar sem fæðast innan þessa girðinga, sem hafa alist algjörlega upp eins og villtir ljónsungar gera, teknir og þeim er sleppt út í náttúruna.
Samtökin ráða til sín fólk úr nágrenninu svo næst liggjandi bæir gæða á því að hafa þau hér. Þau taka þátt í allskyns félagsstarfi um leið og þau fræða nágranna sína um markmið sín. Taka þátt í að efla skólastarf og aðstoða munaðarleysingjahælið. Auk þess að fá gesti hingað til að skoða ljónin fá þau líka sjálfboðaliða hingað sem fá að taka beinan þátt í því sem er gert hérna daglega. Þátttakendur borga fyrir mat og gistingu eins og gestir auk þess sem þeir fá að upplifa beint líf og starf starfsfólksins (heimamanna). Þessir peningar fara síðan beint í hjálparstarfið sjálft.
Þetta er einmitt það sem við höfum verið að gera s.l. mánuð. Tað hefur sko verið nóg að gera, hvern morgun eigum við að mæta kl. 6:15 í ljónagöngu, svo er morgunmatur kl. 8:30, maturinn hérna er alveg sérstaklega góður og hellingur af honum fyrir okkur þó svo að úrvalið sé ekki sérstaklega mikið. Svo eru það morgunverkin, þau eru allt frá því að moka skít úr ljónabúrunum í að setja upp rannsóknarefni inn í tölvu.
Hádegismatur er kl.1:00 og eftir hádegis- og kvöldmat fáum við úrval eftirrétta. Svo eru það skyldu verkin til kl. 4 sem geta verið m.a. að ganga meðfram girðingunni umhverfis garðinn að athuga með göt og laga þau, labba um allan garðinn í leit að veiðigildrum (eftir veiðiþjófa), hjálpa fílahirðunum og margt fleira. Kl. 4 er svo önnur ljónaganga. Kl. 7 er svo kvöldmatur og kvöldin fáum við svo út af fyrir okkur, venjulega setjumst við við varðeldinn sem er settur upp á hverju kvöldi fyrir neðan matstofuna eða fólk fer á internetið eða horfa á video, annars eru allir yfirleitt svo þreyttir eftir daginn að það er bara eðlilegt að fara að sofa jafnvel fyrir 9.
Bæði það að fá að kynnast og vera í kingum ljónin og eins fílana er búið að vera alveg einstakt, þetta er stórkostleg upplifun og mynnir helst á að vera í eigin sjónvarpsþætti frá Animal Planet. Við höfum meira að segja verið bara nokkra metra frá ljónunum þar sem þau eru að reyna fyrir sig í veiðum, mig langar að segja frá því að sebrahestar eru mjög kjarkaðar verur, þegar ljónið einn daginn var á eftir þeim sneri stóðhesturinn sér við og réðst á ljónið. þetta var svakalegur eltingaleikur sem fór fram og til baka í þó nokkurn tíma, þar til að ljónið rétt náði að klóra í sebrahestinn, þá stungu hestarnir þau af.
Fílarnir eru einstaklega gáfaðar verur og margt hægt að kenna þeim, fílaþjálfararnir hafa meira að segja kennt þeim að sparka fótbolta og kasta honum med rananum, taka upp prik og hatta fyrir þá og gera ýmsar kúnstir. Þad eru 4 fílar hérna, þeim var öllum bjargað frá þurrki þegar þeir voru yngri og þeir eru aðallega notaðir fyrir fílabaksferðir fyrir túristana. Þeir eru aðeins um 20 ára gamlir (bara unglingar í fílaárum) og þegar þeir verða orðnir fullorðnir (um 40 ára) eru fílar yfirleitt orðnir of stórir og erfiðir viðfangs að þeim er sleppt út í nátturuna, þar geta þeir orðið allt að 60 ára gamlir.
Þetta er búið að vera stórkostlegt æfintýri, og tað verður erfitt að fara héðan, en við höfum þó annað æfintýri að hlakka til, því næsta mánuð munum við eyða í Mosambique að vinna með börnum og hjálpa á ýmsan hátt í samfélaginu þar.
Arna Björg