Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Njarðvíkurskóli hlaut Grænfánann í annað sinn
Föstudagur 5. febrúar 2010 kl. 08:23

Njarðvíkurskóli hlaut Grænfánann í annað sinn


Njarðvíkurskóli hlaut Grænfánann, umhverfismerki vistvænna skóla, í annað sinn í gær og var fáninn afhentur við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöð Njarðvíkur.

Njarðvíkurskóli vinnur samkvæmt umhverfisstefnu Reykjanesbæjar en meginmarkmið með umhverfismennt skólans er að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu og skapa jákvætt viðhorf  til umhverfismála. Með aukinni þekkingu á umhverfismálum og jákvæðu viðhorfi nemenda og starfsmanna er auðveldara að fá þau til að flokka sorp og ganga betur um náttúruna.

Nemendur og starfsfólk skólans hafa tekið sig á í umhverfismálum síðustu ár. Meðal verkefna skólans hefur verið flokkun á pappír og betri nýting hans t.d. að nota báðar hliðar á blöðum, renta einungis það sem er nauðsynlegt og stilla ljósritun í hóf. Rafræn samskipti eru notuð sé þess kostur og umhverfi skólans er haldið hreinlegu með þrifum á skólalóð. Yngri nemendur, í 1.-6. bekk, koma ekki með fernur í skólann og drekka mjólk eða vatn í nestistímum.

Haustið 2007 fékk Njarðvíkurskóli þá viðurkenningu Landverndar að fá að flagga Grænfánanum en Grænfáninn er umhverfismerki vistvænna skóla. Á tveggja ára fresti þarf að endurnýja umsókn um fánann og er þá gerð úttekt á umhverfisstefnu skólans og framkvæmd hennar. Nánari upplýsingar um Grænfánaverkefnið er að finna á heimasíðu Landverndar.

Umhverfisteymi nemenda og kennara tóku við fánanum og eftir athöfnina í íþróttahúsi var fánanum flaggað. Skólastjórn bauð síðan öllum gestum, fullorðnum sem nemendum upp á súkkulaðiköku og mjólk sem vakti mikla lukku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024