Njarðvíkingur fór á kostum á Þorrablóti Keflavíkur
Nærri fjögurhundruð manns sóttu glæsilegt þorrablót Keflavíkur í Íþróttahúsi Keflavíkur í gærkvöldi. Keflvíkingar þjófstörtuðu Þorranum sem hefst samkvæmt gamalli hefð um næstu helgi. Starfsmenn Réttarins framreiddu ljúffengan þorramat sem rann ljúft ofan í maga viðstaddra, meira að segja erlendra körfuknattleiksmanna Keflavíkur sem höfðu ekki séð svona mat áður.
Skemmtidagskrá kvöldins var mjög góð þar sem keflvískir tónlistarmenn og söngvarar héldu uppi þeim þætti. Dúettinn Eldar sem skipaður er þeim Valdimar Guðmundssyni og Björgvini Ívari Baldurssyni tók nokkur lög og síðan kom kór Keflavíkurkirkju og söng hluta úr svokallaðri U2 messu við mikla hrifningu gesta. Kórinn flutti síðan sömu messu í beinni útsendingu í útvarpsmessu á Rúv í morgun. Breiðbandskappinn Rúnar Hannah flutti íþróttaannál og gerði það vel. Maður kvöldsins var þó veislustjórinn og Njarðvíkingurinn Jón Björn Ólafsson sem reyndar á einnig ættir sínar að rekja til Hafna. Jón Björn fór á kostum og var að flestra mati besta skemmtiatriði kvöldsins þar sem hann gerði stólpagrín að mörgum íbúum þessa sveitarfélags.
Að skemmtidagskrá lokinni var stiginn dans fram eftir nóttu undir tónlist Aðalsteins Jónatanssonar. Meðfylgjandi myndir voru teknar á Þorrablótinu. Á þeirri efstu má sjá Magnús Þórisson, matreiðslumeistara á Réttinum með Gunnari Stefánssyni og útlenskum liðsfélögum hans úr körfuboltaliði Keflavíkur, sem borðuðu þorramatinn af bestu lyst.
Körfuboltakapparnir Albert Óskarsson og Guðjón Skúlason með konum sínum þeim Ragnheiði Ragnarsdóttur og Ólöfu Einarsdóttur. Björk Þorsteinsdóttir hélt uppi heiðri bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem eini fulltrúi hennar á samkomunni. Hún er hér með Guðmundi J. Guðmundssyni manni sínum. Honum við hlið er Gunnar Jóhannssonar, formaður körfuknattleiksdeildar til margra ára.
Allir gestir voru ljósmyndaðir með K-merkið við komuna í húsið og síðan var myndunum varpað á vegg í salnum. Skemmtilegt uppátæki Keflvíkinga og hér er Kristján Jóhannsson með myndavélina. Fyrirsæturnar eru Bjarni Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Keflvíkinga og Sigurður faðir hans sem oft mundar myndavélina hér í bæ.
Sætar Keflavíkurkörfuboltadömur tóku vel á þorramatnum.
Sævar Sævarsson fór fyrir hópi fólks sem stóð á bakvið þorrablótið. Jón Ben Einarsson, sem opnaði kvöldið lét hann hlaupa hring í salnum með buxurnar á hælunum.
Jón Björn Ólafsson, veislustjóri fór hamförum og hér er hann í upphafi kvölds með snakkflögur að hætti Magnúsar Gunnarssonar, körfuboltakappa.
Séð yfir þétt setinn salinn í Íþróttahúsi Keflavíkur.
Hvernig borðar maður þetta? Svona...?
Gleði og fjör var við öll borð. Hér eru m.a. forráðamenn Glerborgar, þeir Vignir og Óskar ásamt eiginkonum en Glerborg gaf 200 þús. kr. til Keflavíkur í tilefni kvöldsins. Fremst er Kristján Jóhannsson og kona hans en Kristján var á fleygiferð með myndavélina um kvöldið.