Njarðvíkingur byggir draumahúsið á mögnuðum stað í Noregi
Harpa Lind Harðardóttir er heilluð af Noregi og er flutt þangað í þriðja sinn. Byggir nú nýtt hús í flottum strandbæ.
Njarðvíkingurinn Harpa Lind Harðardóttir er flutt til Noregs í þriðja og síðasta skiptið og segir að þar sé best að vera. „Hef alltaf fundið fyrir tilfinningunni að ég sé komin heim þegar ég kem til Noregs, get ekki útskýrt af hverju en þannig líður mér hér,“ segir Harpa Lind sem er flutt til 11 þúsund manna strandbæjarins Søgne í Suður Noregi, skammt frá Kristiansand. Þar býr hún með Stefáni Gíslasyni, manni sínum og þremur sonum.
Harpa er menntaður innanhússhönnuður og starfar við að teikna og hanna hjá rótgrónu fjölskyldufyrirtæki sem heitir Strai og framleiðir eldhús- og baðinnréttingar og fataskápa og rekur 26 verslanir í Noregi. Eiginmaðurinn var atvinnumaður í knattspyrnu á yngri árum og þjálfar nú aðallið bæjarins, Søgne fotballklubb. Tveir synir þeirra eru hjá þeim, Elvar Nói 8 ára í 3. bekk grunnskóla og Gísli, 17 ára í framhaldsskóla. Sá þriðji, Birgir Gauti er 21 ára og stundar nám í tölvuvísindum í Bandaríkjunum.
Hugurinn í Noregi
Þegar þau voru á Íslandi síðast ráku þau húsgagna- og lífstílsverslun í Garðabæ en hugur þeirra leitaði alltaf til Noregs og því tóku þau ákvörðun um að flytja aftur út.
„Við keyptum geggjaða lóð á æðislegum stað við sjóinn. Þar ætlum við að byggja hús og „hyttu“ í einu. Þetta verður staður þar sem hægt er að slaka á í blíðviðrinu á sumrin og fara svo út á bát og sigla í skerjagarðinum, veiða fisk, krabba og humar en það eru 100 metrar í bátaplássið frá húsinu. Þetta er sannkölluð sumarparadís og náttúran alveg æðisleg hér í kring. Skógur, sjórinn og vötnin þar sem fólk svamlar á sumrin. Þú skilur þetta kannski alveg þegar þú sérð mynd af svæðinu,“ segir Njarðvíkingurinn sem bíður eftir því að teikningar af nýja húsinu klárist en þær eru eftir hennar höfði.
Með smá öfund spyrjum við hana hvort hún fylgist ekki með gömlu heimahögunum en Harpa er alin upp í Njarðvík.
„Jú, ég geri það enda auðvelt þegar maður hefur Víkurfréttir og Facebook,“ segir hún.
Gott veður
Svona spjalli er ekki hægt að ljúka nema að spyrja um stöðu Covid-19 í Noregi og þar sem okkar kona býr.
„Covid ástandið hér er ekki eins slæmt núna eins og síðasta vetur þegar skólunum var lokað. Það er auðvitað mikið um smit en fólk er mjög duglegt að fara eftir reglum og taka tillit til náungans. Nú er fókusinn á að halda öllu opnu, sérstaklega í sambandi við íþróttir og félagslega þáttinn. Atvinnulífið gengur sinn vanagang með fjarlægðar takmörkunum, grímum og spritti þar sem þarf. Það er til dæmis alveg brjálað að gera hjá mér í vinnunni.
Það fer að vora hér á suðurlandinu í mars og það eru ákveðin lífsgæði að hafa gott veður og hlýtt frá mars, apríl og alveg út október.“
Stefán, eiginmaður Hörpu, með soninn Elvar við veiðar. Þarna er m.a. hægt að stunda krabbaveiðar með þvottaklemmum.