Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Njarðvíkingarnir og skáldin í málverki Áka Gränz
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Laugardagur 3. nóvember 2012 kl. 00:09

Njarðvíkingarnir og skáldin í málverki Áka Gränz

Áki Gränz gaf Akurskóla á dögunum,  mynd sem hann  málaði og nefnir Njarðvíkingar og skáldin.  Árni Sigfússon, bæjarstjóri, Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri  og Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi tóku á móti þessari höfðinglegu gjöf ásamt skólastjórnendum Akurskóla þeim Sigurbjörgu Róbertsdóttur og Bryndísi Guðmundsdóttur. Verkinu hefur verið komið fyrir á bókasafni skólans, í Thorkellistofu.

Við afhendingu gjafarinnar sagði Áki frá tilurð myndarinnar og benti á þá staðreynd að þó svo Njarðvík hafi ekki verið stór, þá eigi margir þjóðþekktir einstaklingar úr sögunni rætur sínar að rekja þangað.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um fólkið á myndinni segir listamaðurinn í skjali sem hengt hefur verið upp við hlið myndarinnar í skólanum:

„Hallgrímur Pétursson og Guðríður Símonardóttir komu hingað til lands árið 1637 frá Kaupmannahöfn. Guðríður hafði lent í Tyrkjaráninu er hún bjó í Vestmannaeyjum árið 1627, þar og á fleiri stöðum rændu sjóræningjar fólki sem þeir seldu síðar sem þræla í Miðausturlöndum. Guðríður var ein fárra sem átti afturkvæmt. Hallgrímur hafði dvalið um hríð í Kaupmannahöfn þar sem þau kynntust. Þau dvöldu hér á Suðurnesjum til ársins 1644. Hallgrímur orti m.a. Passíusálmana, hann er eitt af höfuðskáldum Íslendinga.
 

Rétt við Njarðvíkurkirkju er minnismerki um Jón Thorkellius sem gaf allar eigur sínar til þess að fátæk börn á þessu svæði gætu gengið í skóla. Jón var mikill lærdómsmaður eins og Sveinbjörn Egilsson sem fæddist í Innri-Njarðvík árið 1791. Sveinbjörn varð fyrsti skólastjóri Lærða skólans í Reykjavík. Hann þýddi meðal annars jólasálminn: Heims um ból. Sonur hans, Benedikt Gröndal, var þekktur rithöfundur og náttúrufræðingur á ofanverðri 19. öld. Dóttir Sveinbjarnar var Þuríður Kúld, bjó lengst af vestur í Flatey og í Stykkishólmi. Þar kynntist hún Matthíasi Jochumssyni sem hún studdi til náms. Hann orti m.a. þjóðsönginn og líka afar fallegt ljóð (erfiljóð) til Þuríðar þegar hún lést.
 

Theodór Friðriksson frá Höskuldarkoti skrifaði bók um lífið við sjávarsíðuna fyrr á tíð sem heitir: Í verum. Eggert Guðmundsson frá Stapakoti málaði m.a. mannlífið á bernskuslóðum sínum. Ásta Árnadóttir frá Narfakoti varð fyrst kvenna til að læra og starfa sem húsamálari en bróðir hennar, Magnús var listmálari, myndhöggvari og skáld. Gylfi Gröndal rithöfundur tók meðal annar saman æviminningar Ástu málara.
 

Í Íslandsklukku Halldórs Laxness koma margar eftirminnilegar persónur við sögu. Ein þeirra er Hólmfastur sem bjó hér í Njarðvík í Hólmfastkoti á tímum einokunarverslunarinnar. Hann lenti upp á kant við kaupmenn og fór í fangelsi fyrir. Margrét Jónsdóttir var eiginkona Þorbergs Þórðarsonar, hún og Helgi Ásbjörnsson í Innri-Njarðvík voru systkinabörn.
 

Guðmundur Finnbogason frá Hvoli og Karvel Ögmundsson voru báðir þekktir Njarðvíkingar og skilja eftir sig mikið lífsstarf, m.a. skrifuðu báðir bækur“.