Njarðvíkingar senda Eysteini baráttukveðjur
Glímir við afar erfið veikindi
Keflvíkingurinn Eysteinn Skarphéðinsson var í opinskáu og átakanlegu viðtali við Stundina nú í vikunni þar sem hann tjáði sig m.a. um baráttuna við fjórða stigs krabbamein og einnig við bakkus í gegnum tíðina. Eysteinn lék á árum áður körfubolta með sigursælu liði Njarðvíkinga og á þaðan góðar minningar. Njarðvíkingar heilsuðu upp á Eystein í vikunni og komu færandi hendi með gjöf frá núverandi leikmönnum liðsins.
Á Facebook síðu Njarðvíkinga segir: „Gamall liðsfélagi okkar og vinur, Eysteinn Skarphéðinsson, glímir nú við erfið veikindi. Við nokkrir af hans gömlu félögum fengum liðsmenn karlaliðs UMFN til árita keppnistreyju frá sl. tímabili honum til heiðurs. Fékk hann treyjuna hans Loga (Gunnarssonar) afhenta í dag og gladdi sendingin hann mikið. Þrátt fyrir erfiðar stundir í vor hefur Eysteinn fylgst vel með gangi mála hjá UMFN og er félaginu tryggur stuðningsmaður. Hann bað fyrir góðri kveðju til félaga UMFN, brosti sínu breiðasta og vill að sjálfsögðu bikar á loft næsta vor. Við Njarðvíkingar sendum Eysteini okkar baráttukveðjur og þakkir fyrir stuðninginn til UMFN.“