Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Níu laga diskur við texta Rúnars Júlíussonar
Laugardagur 8. desember 2012 kl. 11:41

Níu laga diskur við texta Rúnars Júlíussonar

Júlíus Guðmundsson gefur út nýja sólóplötu nú fyrir jólin. Platan heitir Gálan, en Júlíus hefur áður gefið út tvær plötur undir þessu listamannsnafni.  Platan hefur að geyma níu lög sem samin eru eftir textum og hugmyndum föður listamannsins Rúnars heitins Júlíussonar sem lést  5. desember 2008.

Á plötunni annast Júlíus allan söng, en naut aðstoðar  Védísar Hervarar  Árnadóttur sem söng með í einu lagi. Þá leikur Júlíus á öll hljóðfæri eins og á fyrri plötum Gálunnar en notast var við hrúgu af hljóðfærum. Hann hafi þó mikið reynt að þjösnast á fiðlu og selló en það gekk ekki alveg samkvæmt áætlun þannig að Roland Hartwell var fenginn til að leika á fiðlu í einu lagi en óþarfi að hafa mörg orð um það.

Júlíus segir lögin á plötunni vera „sín lög“ en hann hafi reynt að semja lög sem pössuðu textunum eftir föður hans. Aðspurður hversu lengi hann hafi verið að vinna í plötunni, segist hann hafa hafið undirbúning fljótlega eftir andlát föður síns og farið í að finna til texta og semja við þá tónlist. „ Þetta var kannski einhvers konar aðferð til að vinna á sorgarferlinu og eftir talsverða vinnu og langan tíma var komið nægt efni til að telja í plötu“.

Platan er tileinkuð móður Júlíusar enda segir Júlíus föður sinn hafa undir það síðasta samið mikið til konu sinnar, Maríu Baldursdóttur og einnig hafi hann verið að semja um lífið og dauðann. „Það má lesa það út úr textunum að pabbi hafi vitað í hvað stefndi. Þetta eru engir svartnættistextar en þetta er allt á mjög persónulegum nótum. Ákveðið uppgjör, ástin, lífið, dauðinn og tilveran“ segir Júlíus í samtali við Víkurfréttir.

Til eru um hundruðir textahugmynda og brot eftir Rúnar sem Júlíus fór í gegnum og þar leyndust mörg gullkorn. Textinn „Allt of oft“, sem var að öllum líkindum saminn í brúðkaupsferð þeirra á Jamaica, fjallar á einstakan hátt um það hvað litlu hlutirnir í lífinu skipta miklu máli og að maður eigi að lifa fyrir daginn í dag.

„Í sumum tilfellum vann ég bara út frá einni línu sem pabbi var byrjaður á en ekki kominn lengra, eða tók jafnvel búta úr nokkrum textum og splæsti saman í einn“ segir Júlíus.

Diskurinn Gálan kom út 5. desember, en þann dag fyrir fjórum árum féll Rúnar Júlíusson frá.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024