Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Níræður sjómaður á strandveiðum
Einar er hvergi hættur og segist ætla að róa í tíu ár í viðbót. VF/SDD
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 6. ágúst 2023 kl. 11:25

Níræður sjómaður á strandveiðum

Einar Kristinn byrjaði að fara sjálfur á árabát á sjóinn við fermingu og hefur stundað strandveiði síðan kerfið var sett á árið 2009. Ætlar að róa í tíu ár í viðbót.

Strandveiðitímabilinu lauk fyrir nokkrum vikum en þá kláraðist heildarkvótinn, tíu þúsund tonn. Veiði var góð á D-svæðinu sem tilheyrir Suðurnesjunum og þrátt fyrir að smábátasjómenn hafi óskað eftir fjögur þúsund tonna aukakvóta var það ekki samþykkt af Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einn elsti strandveiðimaður á Íslandi, ef ekki sá elsti, rær frá Grindavík. Einar Kristinn Haraldsson varð níutíu ára gamall þann 9. apríl síðastliðinn, blaðamaður Víkurfrétta skellti sér í róður með honum.

Einar mokar ís.

Ungur á sjóinn með pabba

Einar fór yfir byrjunina á sjómannsferlinum. „Ég er fæddur og uppalinn á Eyvindarstöðum austur í Þórkötlustaðarhverfi og var mjög ungur farinn að fara á sjóinn með pabba. Um fermingu vorum ég og Siggi vinur minn farnir að fara sjálfir á árabát og tókum með okkur færi og beitu, svo það má segja að ég hafi verið byrjaður að róa um fermingaraldurinn. Það yrði eitthvað sagt ef fermingarstrákar færu einir á árabát út á sjó í dag.

Ég réði mig í pláss þegar ég var sautján ára gamall, byrjaði á Ægi og var á ýmsum bátum, m.a. á Maí og Merkúr sem Einar Dagbjartsson átti og var skipstjóri á. Ég keypti mér sjálfur bát árið 1952 sem ég réri á milli þess sem ég var á vertíðum en svo þurfti ég að hætta sjómennsku vegna slæms magasárs. Ég þurfti að fara í nokkrar aðgerðir svo ég fór í land, keypti mér vörubíl og vann þannig en gat þó alltaf róið eitthvað á trillunni minni. Svo réði mig á höfnina í Grindavík og vann þar þangað til ég var kominn á eftirlaunaaldurinn. Keypti mér þá bátinn sem ég á í dag, Hamar, og hef siglt honum allar götur síðan.“

Til yndisauka og fiskur í soðið

Þegar strandveiðikerfið var sett á árið 2009 sá Einar sér leik á borði. „Þegar ég eignaðist Hamar fór ég mest á sjóinn mér til yndisauka og til að veiða mér í soðið. Svo gafst kvótalausum sjómönnum möguleiki á að fiska þegar strandveiðikerfið var sett á, árið 2009. Ég hef nýtt mér það allar götur síðan. Mér finnst skrýtið hvernig þetta kerfi er uppbyggt, það á að byrja fyrr á okkar svæði þegar fiskurinn er hér fyrir utan. Af hverju við megum ekki byrja fyrr en 2. maí skil ég ekki, við ættum að byrja 1. apríl. Fiskurinn færir sig alltaf vestur á bóginn og fyrir þá sem róa á C-svæðinu fyrir norðaustan, þeir fá ekki almennilegan og stóran fisk fyrr en í júlí en þá hafa hinir klárað heildarkvótann. Það er ekki sanngjarnt að mínu mati,“ segir Einar.

„Ég væri löngu hættur þessu ef ég þyrfti ennþá að draga færið á höndunum, það er nokkuð ljóst.“


Tíu ár í viðbót

Einar man tímana tvenna og þakkar tæknibyltingu að hann getur ennþá stundað sjóinn. „Þegar við Siggi vinur minn rérum á árabátnum forðum vorum við bara með handfæri með blýsökku og beitu, við drógum færið á höndunum. Tæknin var ekki komin og það var mikil bylting man ég þegar handsnúnu rúllurnar komu með girni, það gerði vinnuna auðvitað margfalt auðveldari og svo ég tali nú ekki um þegar rafmagnið kom. Ég væri löngu hættur þessu ef ég þyrfti ennþá að draga færið á höndunum, það er nokkuð ljóst.“

Dagurinn með Einari var annars fínn, það var blíðuveður en veiðin lítil. „Það hefði mátt vera meira fiskerí. Það er alltaf skemmtilegra að stunda þetta þegar fiskast. Fiskurinn er bara farinn svo langt vestur. Við hefðum getað farið út á Sker þar sem þeir voru að taka skammtinn í dag en sú sigling hefði tekið okkur þrjá klukkutíma, ég nenni ekki að standa í því. Ætli ég fari ekki í fyrramálið en svo er þessu strandveiðitímabili lokið að sinni og spurning hvað ég geri í framhaldinu. Eigum við ekki að segja að ég eigi eftir einhver tíu ár eftir í þessu,“ sagði Einar sposkur í lokin.