Nesvellir óðum að taka á sig mynd
Framkvæmdir við og í nýbyggingu á Nesvöllum standa nú sem hæst og samkvæmt áætlun nálgast verklok í ok næsta mánaðar. Víkurfréttir litu við og tóku púlsinn.
„Þetta stendur ágætlega, svona veðurlega séð, ætli það sé ekki best að nefna það. Framhliðin er að verða búin og verið er að vinna að bakhliðinni. Ellert Skúlason er aðalverktaki en við sjáum um þessar framkvæmdir,“ segir Hjalti Már Brynjarsson, verkstjóri hjá Grjótgörðum ehf.
Hjalti var ásamt sínum mönnum að helluleggja við innganginn og við húsið að utan þegar Víkurfréttir bar að garði. Hjalti segist vera með sex menn í hellulögnum og fjóra til fimm í undirvinnu og lögnum. Svo séu aðrir með innréttingar. „Þetta er aðeins á eftir áætlun, en það er aðallega út af veðri,“ segir Hjalti Már.
Innanhúss hittum við fyrir Eggert Jónsson, framkvæmdastjóri Þarfaþings hf, sem er í forsvari fyrir framkvæmdir innanhúss. „Stefnan er tekin á að klára þetta í lok febrúar en framkvæmdir ganga oft hratt svona í lokin. Það er verið að taka svona síðustu törnina og svo verður þrifið. Við erum alveg í þokkalegum málum með þetta.“
Þarfaþing kom inn í verkið í júní og þá var húsið fokhelt. „Bara innanhússfrágangur kostar 550 milljónir. Það er utan annars kostnaðar þegar rúm, sjúkrabúnaður og slíkt kemur,“ segir Eggert.
Á þriðju hæð var mesta myndin komin á af hæðunum þremur. „Þetta er allt eins á hverri hæð, hver álma eins, bara sinn hvor liturinn á vegg í setustofu á hverri hæð til þess að íbúar og gestir átti sig á því á hvaða hæð þeir eru staddir,“ segir Eggert. Um er að ræða 60 herbergi, 20 á hverri hæð í tveimur álmum. Eggert segir að um sé að ræða sömu hugmyndafræðina í þessum íbúðum og í Sjálandshverfinu í Garðabæ; rúmgott baðherbergi, eldhúskrók og pláss fyrir rúm, borð og stóla.
Gangstéttin fyrir utan að verða tilbúin.
Vanir menn og vönduð vinna hjá Grjótgörðum ehf.
Vinnufélagar þessa sögðu hann einbeittasta starfsmanninn.
Allur frágangur skiptir máli.
Eggert Jónsson, framkvæmdastjóri Þarfaþings hf., í einni af íbúðum á 3. hæð.
Eldhúsinnrétting og sjónarhorn inn í rýmið þar sem rúmin verða.
Einnig skiptir allur frágangur máli innanhúss.
VF/Olga Björt