Nemendur sigruðu úrvalslið kennara FS
Gettu Betur lið FS undirbýr sig fyrir útvarpið
Lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Gettu Betur bar sigurorð af úrvalsliði kennara skólans í spennandi spurningakeppni í gær. Úrvalslið kennara samanstóð af þeim Þorvaldi Sigurðssyni íslenskukennara, Atla Þorsteinssyni sögukennara og Guðmanni Kristþórssyni bókasafnsfræðingi. Hjá FS-ingum voru það Alexander Hauksson, Ragnar Frandsen og Bjarni Halldór Janusson sem sátu fyrir svörum.
Keppnin var jöfn og spennandi allan tímann og skiptust liðin á að halda forystunni. Eftir hraðaspurningar voru liðin jöfn en kennarar komust svo yfir í næstu lotu. FS-ingar náðu að jafna undir lok keppninnar og komust yfir á næstsíðustu spurningunni, lokatölur urðu 15-14 nemendum í vil.
Ólafur Ingvi Hansson nemandi FS var spyrill en spurningahöfundur var Andri Þór Ólafsson fyrrum nemandi FS og núverandi þjálfari Gettu Betur liðsins.
Lið FS í Gettu Betur hefur keppni í útvarpinu nú á sunnudag en þá mætir liðið Menntaskólanum á Egilsstöðum klukkan 14:30 á Rás 2.