Nemendur fögnuðu Jóhönnu ákaft
Sigurvegari IGT tók lagið í Myllubakkaskóla
Nemendur Myllubakkaskóla tóku Jóhönnu Ruth opnum örmum, þegar þessi glæsilegi sigurvegari Ísland got talent, söng fyrir samnemendur sína á sal skólans í morgun. Á sunnudag fagnaði Jóhanna sigri í keppninni og hafði hún fengið frí í skólanum á mánudeginum til þess að jafna sig á herlegheitunum og ræða aðeins við fjölmiðla.
Jóhanna Ruth Luna Jose steig á stokk og söng Tinu Turner slagarann „Simply the best,“ sem færði henni sigurinn á sunnudag. Auðvitað var flutningurinn lýtalaus og nemendur og starfsfólk skólans dilluðu sér með og klöppuðu ákaft. Hún fékk afhend blóm frá Kjartani Má bæjarstjóra Reykjanesbæjar og Bryndís skólastjóri óskaði henni til lukku með glæsilegan árangur.
Hin 14 ára gamla Jóhanna hyggst nota verlaunaféð, sem er tíu milljónir króna, til frekara tónlistarnáms en hún hefur mikla ástríðu fyrir tónlist og gerir ráð fyrir því að leggja hana fyrir sig í framtíðinni. Nánar verður rætt við Jóhönnu í Víkurfréttum og í sjónvarpi okkar á fimmtudag.