Nemendur 7. bekkjar Holtaskóla í Skólabúðunum að Reykjum
Vikuna 8.-12. september dvöldu nemendur 7. bekkjar Holtaskóla í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði við nám, leik og störf. Þetta er þriðja árið sem nemendur úr Holtaskóla fara í Skólabúðirnar að Reykjum sem hafa verið starfræktar frá árinu 1988. Á hverju skólaári koma 11-12 ára nemendur víðs vegar að af landinu og dvelja að Reykjum, viku í senn. Að þessu sinni voru nemendur úr Árskóla á Sauðárkróki samtímis nemendum Holtaskóla í skólabúðunum og náðust góð kynni meðal nemenda þessara skóla.
Dagskráin í skólabúðunum er miðuð við staðhætti að Reykjum og er áherslan lögð á íþróttir, náttúrufræði og útivist, heimsókn á byggðasafn og toppurinn er svo heimsókn á sveitabæinn Tannstaðabakka, þar sem bóndinn kynnir starf sitt og áhugamál á lifandi og eftirtektarverðan hátt. Á kvöldin eru svo haldnar kvöldvökur þar sem nemendur fara á kostum í leikritum, tískusýningum og ýmiss konar leikjum.
Að sögn Þorvarðar Guðmundssonar skólabúðastjóra er aðsóknin að skólabúðunum góð og vex með ári hverju þar sem skólaárið lengist og því finnst sífellt fleirum tilvalið að brjóta hefðbundið skólastarf upp með þessum hætti. Þorvarður nefnir líka að fyrir marga væri það stórt skref að fara að heiman og gista á ókunnum stað, en sigurinn sé líka mikill eftir því sem líður á vikuna og heimþráin minnkar. Í skólabúðunum gilda fáar en skýrar skólareglur sem m.a. kveða á um að GSM-símar eru bannaðir og það á einnig við um sælgæti og hefur það ekki reynst vera vandkvæðum bundið að fá nemendur til að fara eftir þessum reglum, nema í undantekningartilfellum.
Nú nýlega tóku tvenn hjón starfsemi og húsakost Skólabúðanna að Reykjum á leigu til tíu ára, það eru þau Þorvarður Guðmundsson og Ingunn Pedersen annars vegar og Karl B. Örvarsson og Halldóra Árnadóttir hins vegar. Aðspurður um það hvernig þau hyggðust nýta húsakostinn á sumrin þegar rekstur skólabúða liggur niðri sagði Þorvarður að stefnan væri að taka á móti hópum í ýmiss konar tilgangi t.d. vegna nemendamóta, ættarmóta, starfsmannaferða, og fleira. Að Reykjum er hægt að hýsa 120 manns í 2-4 manna herbergjum, matsalur er fyrir sama fjölda auk þess sem að íþróttahús, sundlaug og Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna er að Reykjum.
VF-ljósmynd: Hópurinn samankominn í íþróttahúsinu að Reykjum.