Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nemendum þótti áhugavert að fræðast um liðna tíma
Nokkrar stúlkur úr 7.bekk stilltu sér upp fyrir ljósmynd. „Ótrúlega gaman að lesa þessa bók!”
Föstudagur 5. maí 2023 kl. 06:02

Nemendum þótti áhugavert að fræðast um liðna tíma

Fyrir um ári síðan gáfu Marta Eiríksdóttir, rithöfundur, og Víkurfréttir eintök, heilt bekkjarsett, af bókinni Mei mí beibýsitt? – Æskuminningar úr bítlabænum Keflavík inn í alla grunnskóla á Suðurnesjum. Með gjöfinni fylgdi sú von að nemendur fengju að kynnast lífinu eins og það var á sjöunda áratug síðustu aldar en þá gerist sagan.

Bókin hefur í raun menningarlegt gildi í dag um liðna tíma en sögusviðið spannar tímabil í sögu Keflavíkur þegar fjölskyldur amerískra hermanna bjuggu á meðal Íslendinga. Það var húsnæðisskortur á Vellinum á þessum árum og þess vegna byrjuðu íslenskar fjölskyldur að útbúa leiguhúsnæði handa kanafjölskyldum í bílskúrum og kjöllurum húsa sinna. Börnin í sögunni voru uppátektarsöm og skapandi eins og börn þess tíma þurftu að vera. Lítið var um sjónvarpsgláp, engar tölvur voru til eða farsímar til að drepa tímann. Mjög ólíkir tímar frá þeim sem nútímabörn þekkja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Gunnar Helgi Pétursson kynnti verkefni sitt daginn sem höfundur heimsótti skólann.

Heiðarskóli í Reykjanesbæ er fyrsti skólinn á Suðurnesjum sem býður höfundinum, Mörtu Eiríksdóttur, í heimsókn til að spjalla við nemendur 7. bekkjar um bókina. Nemendurnir höfðu verið að lesa bókina og vinna verkefni tengd henni en rúsínan í pylsuendanum var að hitta höfundinn sjálfan í liðinni viku.

Það var mikil eftirvænting á sal þegar Marta Eiríksdóttir hitti nemendurna og hóf spjallið. Þegar hún spurði hvaða kafla hún ætti að lesa fyrir þau lá ekki á svörum. Strákarnir hrópuðu: „Viltu lesa kafla fjórtán? – Nei, viltu lesa kafla nítján?,“ hrópuðu stelpurnar.

Marta fékk skýringar á þessu frá kennurum en í kaflanum sem strákarnir báðu um var verið að fjalla um typpið á kanastráknum Jamie, sem var umskorið. Og í kaflanum sem stelpurnar báðu um var fjallað um kynfæri höfundarins þegar hún var að þroskast líkamlega. Þetta þótti nemendum greinilega mjög spennandi samkvæmt viðbrögðunum.

Gunnar Helgi ásamt Sóleyju Birgisdóttur, kennara.

Nemendur höfðu allir fengið það verkefni undanfarið að lesa sér til ánægju og fróðleiks og áttu að fjalla um einn kafla úr bókinni. Í því verkefni gerðu þau grein fyrir þeim áhrifum sem sagan hafði á þau, lögðu fram rökstutt mat um tengsl samfélags og lífsviðhorfa fyrr og nú.

„Já, nemendum líkaði verkefnið vel,“ sagði Sóley Birgisdóttir kennari aðspurð. „Þetta var einnig góð þjálfun í að draga fram aðalatriðin og rökstyðja skoðanir sínar. Auk þess sem við kennararnir leggjum mikið upp úr þjálfun í að koma fram fyrir hópinn og kynna verkefni sín. Nemendum fannst áhugavert að fræðast um veru Ameríkananna hér og áhrif þeirra á samfélagið. Auk þess að bera saman allar breytingarnar sem hafa átt sér stað síðastliðinn sextíu ár. Sparsemin þótti þeim áhugaverð og nýtnin, gert var við sokka, ræktaðar voru kartöflur, tekið slátur á haustin og að nammi hafi sjaldan verið í boði,“ en Sóley Birgisdóttir og Una Björk Kristófersdóttir kenna íslensku í 7. bekk og leiddu verkefnið.

Umsjónarkennarar 7. bekkja Heiðarskóla, Sóley Birgisdóttir og Una Björk Kristófersdóttir.