Nemendum finnst gott að fara í jóga og slökun
Andlegt álag og streita er í dag eitt stærsta heilbrigðisvandamál heims og því mikilvægt að nemendur eigi tæki og tól til að takast á við þær áskoranir í framtíðinni.Blaðakona Víkurfrétta laumaði sér inn í jógatíma hjá yngri nemendum einn dimman mánudagsmorgun og andaði djúpt um leið og börnin. Í dag eru þrír kennarar við Heiðarskóla sem hafa komið að þessari kennslu en einn þeirra er í fæðingarorlofi á þessu skólaári. Þeir eru allir almennir kennarar en hafa tekið námskeið í krakkajóga.
Gróa Björk, sem er bæði smíða- og jógakennari við skólann, var að kenna nemendum 3. og 5. bekkjar jóga þennan morgun.
Hvers vegna jóga í skóla?
„Mikil spenna hleðst upp í börnum sem mörg hver eru lítið sem aldrei úti að leika sér. Sum þeirra eru jafnvel orðin háð því að vera með snjallsíma. Áhrifin af þessu sér maður vel í slökunarhluta jógatímans þegar nemendum á öllum aldri finnst erfitt að sleppa spennunni, gefa eftir, leyfa sér að liggja kyrr og slappa af en þetta þjálfast. Kemur allt og verður betra með hverri jógastund. Öndun er mikilvægur þáttur í jógakennslunni. Ég segi þeim að ef þeim líður illa, eru hrædd eða finna til, þá sé djúp öndun það sem hjálpar þeim að líða betur,“ segir Gróa Björk.
Þau þurfa öll á þessu að halda
Í rökkrinu liggja nemendur á jógadýnum með teppi yfir sér, sumir eiga létt með að liggja kyrr og slaka á, aðrir eru órólegri en það jafnar sig fljótt með leiðbeiningum frá Gróu Björk.
„Við byrjuðum á þessuí fyrra með nokkrum bekkjum, ég og Guðrún Lísa Einarsdóttir en nú fá allir nemendur frá 1. til 5. bekk að fara í einn jógatíma á viku. Unglingarnir fá jóga sem valgrein og það er mjög vinsælt hjá 8., 9. og 10. bekk. Þau þurfa öll svo á þessu að halda. Við höfum þrjár komið að jógakennslunni í Heiðarskóla eftir að hafa tekið námskeið í krakkajóga hjá Yogavin en þar hefur komið kennari frá Bandaríkjunum og kennt okkur,“ segir Gróa Björk.
Styrkjum sjálfstraust unglinga
„Ég vinn öðruvísi með unglingunum þegar ég fæ þau til mín en í ár ákváðum við að skipta þeim í stráka- og stelpuhópa, það hentar þeim aldri vel. Með unglingunum erum við líka að tala saman um tilfinningar um leið og við gerum jógaæfingar. Það er svo gott að tala um það hvernig okkur líður. Þá æfum við núvitund meira, vera hér og nú, lærum að hlusta á innri röddina okkar og að þora að standa með sjálfum sér. Við veltum því fyrir okkur hver stjórnar okkur. Leyfa ekki öðrum að stjórna okkur eða segja okkur að gera eitthvað sem okkur mislíkar, sérstaklega á þetta við um nemendur 10. bekkjar sem eru að fara í framhaldsskóla. Þar geta þau fengið alls konar tilboð, til dæmis að drekka vín eða annað til að falla inn í hópinn. Þá er mikilvægt að þora að standa með sjálfum sér og hlusta á innri röddina sem passar upp á okkur. Við erum einnig alltaf að tala um vera góð við hvert annað, sýna hlýju því þá verður heimurinn aðeins betri ef fleiri muna eftir því,“ segir Gróa Björk og brosir.
„Mér finnst algjört æði að kenna nemendum jóga. Það er bara svo nauðsynlegt að kenna þeim að anda djúpt og vera til staðar, hér og nú“
Hjálpar nemendum að upplifa jafnvægi og frið innra með sér
„Fjöllin standa kyrr í öllu veðri og þannig getum við, kjarni okkar, staðið kyrr þegar á reynir og fundið frið og innri ró,“ segir Gróa Björk við hóp nemenda í 3. bekk, sem standa með hendur upp í loft og þrýsta iljunum í gólfið. Þessi staða hjálpar þeim að jarðtengja sig.
„Mér finnst algjört æði að kenna nemendum jóga. Það er bara svo nauðsynlegt að kenna þeim að anda djúpt og vera til staðar, hér og nú. Mér þykir mjög vænt um að heyra þegar nemendur segjast hafa gert þessa eða hina æfinguna heima, til dæmis öndunaræfingu sem heitir Krossfiskurinn og er róandi æfing. Með yngri nemendum syngjum við, hreyfum okkur en allir aldurshópar læra að anda upp á nýtt. Við tölum um að það sé í lagi að vera hræddur, leiður og ef þau lenda í erfiðum aðstæðum, að þá sé gott að anda djúpt. Það er í lagi ef einhver vill ekki leika við okkur, við gerum þá bara eitthvað annað. Öndun hjálpar þeim að takast á við aðstæður og tilfinningar sínar, að vera hér og nú. Þau fá öll slökun í lok tímans og verða alltaf betri og betri í því að liggja kyrr, æfingin skapar meistarann.“
Steinunn Jónína Jónsdóttir 5. bekk:
Jóga hjálpar mér að synda betur skriðsund
„Mér finnst mjög skemmtilegt í jóga, finnst gaman að teygja mig. Ég æfi líka sund og mér finnst ég synda betur skriðsund með jóga, get betur teygt handleggina. Jóga er að hjálpa mér í sundinu. Öndunin sem við lærum í jóga róar mig niður, það er mjög þægilegt að kunna það. Við teygjum okkur alltaf fyrst í tímanum og fáum svo slökun í lokin. Þegar ég byrjaði fannst mér erfitt að teygja mig, ég var svo stíf en ég er miklu betri í dag. Ég vil hafa jóga tvisvar í viku í skólanum, þetta er svo gott. Uppáhaldsjógastaða mín er „Hundurinn sem horfir niður“ því mér finnst hún svo róandi.“
Bjarki Már Pétursson 5. bekk:
Jóga róar mig niður
„Mér finnst ekki brjálæðislega gaman en maður getur alveg verið í jóga. Jóga róar mig niður en ég er alls ekki liðugur. Ég er samt að breytast og er betri í að teygja mig. Ég er búinn að læra að anda djúpt og kann að slappa af. Ég hef nokkrum sinnum notað öndun heima áður en ég fer að sofa. Ég vil alls ekki sleppa jógatímunum, ég vil hafa þessa tíma í skólanum. Uppáhaldsjógastaða mín er „Hundurinn sem horfir niður“.“