Nemendalýðræði í Sandgerðisskóla sem tekur þátt í bæjarhátíðinni
„Það verður gaman að fá Háskólalestina í heimsókn til okkar,“ segir Bylgja Baldursdóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla en skólahald hefst á fimmtudag. Sandgerðingar fengu nokkra Grindvíkinga í skólann til sín síðasta vetur og gengu umskiptin vel fyrir sig að mati Bylgju en nokkrir hafa horfið á braut en aðrir komið í staðinn. Sandgerðisskóli tekur þátt í bæjarhátíð Suðurnesjabæjar sem hefst í næstu viku og Bylgja er bjartsýn fyrir komandi skólaár, segist vera með einvala starfslið.
Bylgja er að hefja sitt fjórða skólaár sem skólastjóri ef með er talin afleysing til að byrja með. Þar áður hafði hún lengi unnið við skólann enda er hún Sandgerðingur í húð og hár.
„Ég er búin að starfa við skólann í tuttugu ár, fyrst sem kennari í tíu ár, svo deildarstjóri, síðan aðstoðarskólastjóri og er að hefja mitt fjórða skólaár sem skólastjóri. Það eru 310 nemendur skráðir til náms á þessu komandi skólaári og mæta börnin á morgun, yngri kynslóðin kl. 8:15 og þau eldri kl. 9, þannig hefur það verið til fjölda ára. Það varð auðvitað breyting hjá okkur eins og mörgum öðrum skólum þegar hremmingarnar í Grindavík áttu sér stað, við fengum ellefu Grindvíkinga í skólann og gengu vistaskiptin afskaplega vel myndi ég segja, börnin aðlöguðust fljótt og örugglega. Sumir af þeim eru fluttir annað en aðrir koma í staðinn, Grindvíkingar eru að koma undir sig öruggu landi en í vetur voru þau á flótta og fóru þangað sem þau gátu farið og börnin gengu í viðkomandi skóla eða voru í safnskólanum í Reykjavík. Við munum að sjálfsögðu áfram taka vel á móti grindvískum börnum, eins og öllum öðrum.“
Aðkoma að bæjarhátíðinni
Hefð er fyrir því að Sandgerðisskóli taki þátt í bæjarhátíð Suðurnesjabæjar sem hefst á mánudaginn, nóg verður í gangi fyrir börn að aðra.
„Við erum alltaf með óvænt atriði á fimmtudeginum fyrir nemendur, þá kemur einhver listamaður eða -kona og skemmtir börnunum. Í fyrra kom t.d. Prettiboitjokko en ég get að sjálfsögðu ekki upplýst hér hver kemur þennan fimmtudag. Þetta hefur alltaf mælst vel fyrir og börnin skemmt sér hið besta.
Svo fáum við Háskólalestina til okkar á föstudeginum en fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er megináhersla Háskólalestarinnar að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskóla og efla tengsl HÍ við landsbyggðina. Í áhöfn lestarinnar eru margreyndir kennarar og nemendur, sem margir hverjir starfa einnig sem leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins, sem hafa notið mikilla vinsælda eins og lestin sjálf. Sjötti til tíundi bekkur fá kennslu og þá öðruvísi kennslu frá þessu flotta fólki og á meðan fara yngri bekkirnir í ratleik. Almenningi verður svo gefinn kostur á að kynna sér út á hvað Háskólalestin gengur á laugardeginum milli tvö og fjögur og auðvitað er kynning á starfsemi háskólans í leiðinni.
Skólaárið leggst annars vel í mig, ég er mjög ánægð með starfsfólkið mitt, valinn maður í hverju rúmi og ég er líka ánægð með það að undanfarin tvö ár hefur nemendalýðræði verið við lýði. Nemendur hafa fengið tækifæri á að taka þátt í ýmsum ákvörðunum innan veggja skólans og hefur það gengið mjög vel. Skólinn er í nánu samstarfi við Þekkingarsetrið, tónlistarskólann og bókasafnið, þetta er allt saman nánast á sama reitnum. Við höfum undanfarin ár lagt mikla áherslu á náttúrugreinar vegna þess frábæra starfs sem unnið er í Þekkingarsetrinu, Fróðleiksfúsi hefur vakið mikla kátínu barna í skólanum. Ég hlakka mikið til vetrarins,“ sagði Bylgja að lokum.