Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nemar í Landhelgisgæslunni
Miðvikudagur 25. ágúst 2004 kl. 16:45

Nemar í Landhelgisgæslunni

Landhelgisgæslan og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa síðustu árin boðið nemendum 10. bekkja grunnskóla Íslands að fara sem nemar í eina ferð með varðskipi yfir sumartímann. Að jafnaði fara sex nemar í hverja ferð. Varðskipsnemar ganga í öll störf um borð í varðskipunum. Þeir standa vaktir í brú, vél, eldhúsi og á þilfari. Reynt er að hafa það fyrirkomulag að þeir kynnist sem flestum störfum um borð og eru nemarnir því 3 daga á hverri vaktstöð. Suðurnesjastrákarnir Róbert Sædal Geirsson og Jóhann I. Hannesson fóru í eina slíka ferð með varðskipinu Tý fyrr í sumar.

Að loknu skólaárinu í 10. bekk geta nemendur sótt um að gerast nemar á varðskipum Íslands. Færri komast að en vilja og því voru þeir Róbert og Jóhann svo sannarlega heppnir að komast í 18 daga ferð með Tý þar sem mikið var um að vera.

„Ferðin var æðisleg, við fengum að fylgjast með radarnum og meira að segja að stýra skipinu. Við fórum einnig í land í Færeyjum þar sem stoppað var til þess að taka olíu,“ sagði Róbert Sædal í samtali við Víkurfréttir.

Dvölin um borð var ekki eintómur dans á rósum þar sem að strákarnir tóku þátt í grafalvarlegu útkalli þar sem kalla þurfti til þyrlu Landhelgisgæslunnar. „Við fengum boð um að bátur hefði sokkið og hófum leit að honum, þyrla frá Landhelgisgæslunni var einnig kölluð til. Sem betur fer fór allt vel,“ sagði Róbert.

Róbert var mjög ánægður með ferð sína og sagði að lokum að hann gæti vel hugsað sér að starfa á varðskipi í framtíðinni.
 
VF-mynd/ á myndinni eru þeir Róbert og Jóhann með fjórum öðrum nemum, varðskipð Týr er í baksýn. Róbert er lengst til hægri og við hlið hans, með húfuna er Jóhann. Mynd frá Landhelgisgæslunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024