Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 22. júlí 1999 kl. 22:35

NEI ER FALLEGASTA ORÐIÐ!

Nú þegar líður að mestu ferðahelgi sumarsins, verslunarmannahelginni, er víst að foreldrar í Reykjanesbæ eins og foreldrar á landinu öllu verða fyrir miklum þrýstingi frá unglingum sínum sem ólm vilja halda á útihátíð.Vegna þessa er mikilvægt að foreldrar á Suðurnesjum taki höndum saman og leyfi ekki börnum sínum sem eru yngri en 16 ára að fara á útihátíð. Útihátíðir eru einfaldlega of áhættusamar fyrir óharðnaða unglinga, hættur margar og mörg víti til að varast. Reynslan sýnir að margir hafa tekið örlagarík spor um þessa helgi á útihátíðum, annaðhvort tekið fyrsta sopann eða neytt ólöglegra fíkniefna í fyrsta skipti. Til eru sorglega mörg dæmi um unglinga sem ánetjast hafa fíkniefnum eftir „fikt” á útihátíð, holskeflur unglinga sem leita illa farnir til meðferðarstofnana snemma hausts bera vitni um það. Enn meiri ástæða er fyrir foreldra að vera á varðbergi nú en áður því þær fréttir berast af fíkniefnaheiminum að framboð af fíkniefnum sé með mesta móti og verðið lágt. Má ætla að sölumenn dauðans líti til verslunarmannahelgarinnar með græðgisglampa í augum í þeirri von um að helgin gefi marga nýja viðskiptavini. Einbeittur vilji og samstaða foreldra er það eina sem getur komið í veg fyrir að viðskiptavinum sölumanna dauðans fjölgi. Því vil ég hvetja foreldra til að sjá til þess að fjölskyldan eyði þessari mestu ferðahelgi okkar íslendinga saman við leik og störf. Ef unglingnum á heimilinu finnst það hið ægilegasta mál og vill halda einn síns liðs eða í vinahópi á útihátíð þá vil ég minna á að nei er fallegasta orðið sem börn heyra frá foreldrum sínum. „Nei elskan mín, þú færð ekki leyfi til þess að fara ein(n) á útihátíð.” Með forvarnakveðju Eysteinn Eyjólfsson Verkefnisstjóri Reykjanesbæjar á réttu róli
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024