Nauðsynlegt að njóta um Verslunarmannahelgina
-Erika Dorielle Sigurðardóttir
Hvað ætlarðu að gera um Verslunarmannahelgina?
„Ég ætla að fara á þjóðhátíð í ár.“
Ertu vanaföst um Verslunarmannahelgina eða breytirðu reglulega til?
„Síðustu þrjú ár hef ég verið vanaföst og farið á þjóðhátíð, en ætli það komi ekki að því að maður breyti til og geri eitthvað annað. Annars er alltaf jafn gaman á þjóhátíð.“
Hver er eftirminnilegasta Verslunarmannahelgin til þessa? Af hverju?
„Fyrsta þjóðhátíðin mín var árið 2014 með vinkonum mínum. Það var ótrúlega gaman og gleymist seint. Þjóðhátíð 2015 skemmtum við Kristrún vinkona mín okkur konunglega og margar skemmtilegar og fyndnar minningar frá þeirri þjóðhátíð með henni.“
Hvað er nauðsynlegt að þínu mati um Verslunarmannahelgina?
„Mér finnst nauðsynlegt að njóta, skemmta sér vel með vinum og fjölskyldu, nýta þessa fríhelgi eins vel og maður getur, þ.e.a.s. ef maður er í fríi.“
Hvað ertu búin að vera að gera í sumar?
„Ótrúlega lítið annað en að vinna. Ég fór í útilegu í Úthlíð með nokkrum vinum fyrr í mánuðinum sem var ótrúlega gaman. Ég er búin að liggja í sólbaði, líklega eins og hver annar Íslendingur, þegar sólin lætur sjá sig. Ég er búin að fara á helling af fótboltaleikjum hjá kærastanum og á leiki hjá Breiðablik sem tengdó hefur náð að draga mig með á.“
Hvað er planið eftir sumarið?
„Eftir sumarið ætla ég að taka við nýrri stöðu sem yfirþjálfari hjá fimleikadeild Keflavíkur sem ég er mjög spennt fyrir. Það verður örugglega brjálað að gera í því þar sem ég verð með alla hópana og að sjá um mót og svona. Ætli ég reyni samt ekki að troða einni útlandaferð inn í vetur, að heimsækja pabba til Noregs eða eitthvað álíka.“