Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Náttúran í stofunni
Mánudagur 23. maí 2005 kl. 15:51

Náttúran í stofunni

Lundinn  flýgur um með síli í litríkum gogginum. Feitur og fallegur lax fettir sig og brettir. Skarfurinn situr á steini og teygir langan og fagurskapaðan hálsinn. Lifandi en líflaus. Nú er veiðitímabilið að hefjast og eflaust margir sem hafa hug á að láta stoppa upp fyrir sig bráðina.

Sveinbjörn Sigurðsson hefur fengist við uppstoppun villtra dýra í nokkur ár en hann lærði handverkið í Bandaríkjunum hjá margföldum heimsmeistara í greininni, Dan Rainehard. Hann ætlar að opna gallerí að Starmóa 5, í Njarðvík, í haust. Víkurfréttir hittu hann að máli og fræddust um listina á bakvið uppstoppunina.

Stoppar upp verðlaunafiskinn
„Ég sérhæfi mig eingöngu í fuglum og fiskum en ég hef einnig stoppað upp refi, hreindýrshausa og fleira. Langmesta vinnan fer í að stoppa upp fiskana því roðið er mjög viðkvæmt og málunin og allur frágangur flókinn, en þetta er hins vegar mjög gaman og skemmtilegt starf,” segir Sveinbjörn. Mörg spennandi verkefni eru framundan t.d. stærsti fiskurinn sem veiddur verður hjá Stangveiðifélagi Keflavíkur í sumar fær fría uppstoppun í verðlaun.

Gömul dýr fá nýtt líf
Sveinbjörn leggur mikið upp úr að hafa dýrin í náttúrulegu umhverfi og það er gaman að litast um á verkstæðinu hans í Starmóa 5 í Njarðvík. „Ég mála dýrin með airbrush-tækni (málningu sprautað á með lofti). Því sjást engin penslaför og áferðin verður mjög eðlileg. Ég hef líka fengist talsvert við að gefa gömlum dýrum nýtt líf. Þá þríf ég þau og mála upp á nýtt með airbrush-tækni. Svo set ég sérstakt efni í augun á dýrunum þannig að þau virðast blaut og meira lifandi. Í dag eru efnin sem við notum mjög góð.”

Meðhöndlun á bráðinni þarf að vera rétt
„Það er orðið talsvert mikið um að fólk komi á vinnustofuna og biðji mig um að útvega dýr og stoppa þau upp. Eftirspurnin er alltaf að aukast. Ég hef í hyggju að opna gallerí hér í haust en þá getur fólk komið og keypt af mér tilbúin uppstoppuð dýr, eða lagt inn pantanir,” segir Sveinbjörn og bendir jafnframt á að ef fólk ætlar að láta stoppa upp fyrir sig dýr sem það veiðir sjálft, þá borgar sig að hafa samband við hann á undan til að fá upplýsingar um hvernig á að ganga frá dýrinu. „Frágangurinn skiptir miklu máli ef útkoman á að verða góð.”

Þess má geta að Sveinbjörn mun hefja framleiðslu á fluguhnýtingarefni í haust, fyrir innlendan og erlendan markað, en hingað til hefur allt efni komið erlendis frá. Fólki er velkomið að hafa samband við Sveinbjörn í síma 693 2277 eða með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]

VF-myndir/ Jón Björn: mynd 1: Sveinbjörn heldur á mjög sjaldgæfum fugl, vitið þið hvað hann heitir? Mynd 2: Toppandarmóðir að verja unga sinn frá ágangi smyrilsins. Mynd 3: Neðri fiskurinn er sjóbirtingur, hrygna, sem er stærsti flugufiskurinn hjá Stangveiðifélagi Keflavíkur sumarið 2004. Eigandi, Eyjólfur. Efri fiskurinn er einnig sjóbirtingur, hængur, og er í eigu Gylfa Jóns en Gylfi fékk þennan í Geirdalsá. Mynd 4: Skógarþröstur í Hreiðri.

 





 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024