„Náttúran hefur skoðanir manna að engu“
Jón Frímann Jónsson er bæði elskaður og hataður í netheimum. Hann hefur verið duglegur að fjalla um jarðhræringar við Grindavík á síðu Jarðsöguvina á Facebook. Jón Frímann talar hreint út í færslum sínum þar sem hann spáir í spilin og segir frá því sem er að vænta. Hann hefur verið ótrúlega sannspár í aðdraganda þeirra eldgosa sem orðið hafa þann 18. desember og 14. janúar síðastliðna. Þá var hann svo sannarlega á tánum og sagði frá því að eitthvað stórt væri að fara að gerast í aðdraganda þess þegar kvikugangurinn myndaðist þann 10. nóvember í fyrra.
Þegar flett er í gegnum færslur Jóns Frímanns á netinu síðustu vikur má greina bæði pirring og háðung í viðbrögðum í garð Jóns Frímanns. Það hefur hins vegar tekið breytingum. Netverjar hafa tekið Jón Frímann í sátt, beðið hann afsökunar á framferði sínu og nú bíða flestir spenntir eftir næstu færslu frá kappanum.
Með bestu útskýringar og athuganir á því sem er að gerast
„Mig langar að biðja þig Jón Frímann afsökunar á pirrings-athugasemd sem ég setti inn fyrir nokkru síðan. Sem pirraður og áhyggjufullur Grindvíkingur fannst mér vont að sitja heima og sjá allskonar spádóma. Nú eftir að hafa flúið aðstæður hefur maður auðvitað fylgst með en ekki eins hræddur og áður. Ég er á því að þú ert með bestu útskýringar og athuganir á því sem er að gerast og bíð ég alltaf eftir pistli frá þér. Takk fyrir að fræða okkur, ég tek mark á því sem þú segir,“ skrifaði Pétur Breiðfjörð við færslu frá Jóni Frímanni á dögunum.
Annar netverji sá sig einnig knúinn til að biðjast afsökunar. „Þú ert mikill meistari ... Ég bið þig hér með afsökunar á hegðun minni hér í kvöld.“ Skömmu áður skrifaði sá sami: „Jón Frímann Jónsson, ég er búinn að troða sokk upp í mig bara sjálfur.“ Það var í kjölfar þess að hafa hæðst að Jóni Frímanni í aðdraganda eldgossins 18. desember. Þar stóðst allt upp á tíu sem Jón Frímann hafði skrifað við upphaf skjálftahrinunnar sem leiddi af sér eldgosið.
Borgaralegur vísindamaður
En hver er Jón Frímann Jónsson? Hann býr á Hvammstanga og hefur verið að velta fyrir sér jarðvísindum frá þrettán ára aldri. Hann hefur skilgreint sig sem borgaralegan vísindamann, ekki með formlega menntun í faginu en búinn að lesa allar vísindagreinar í jarðfræði sem hann hefur komist yfir, segir hann sjálfur í samtali við Víkurfréttir. Þá segist hann hafa tekið það nám sem hann gat.
Jón Frímann er sjálfur með tvo jarðskjálftamæla sem hann vaktar en annars er hann að skoða gögn frá Veðurstofu Íslands. Hann segist verja löngum stundum á náttúruvárvaktinni sinni þó hann reyni að taka sér pásur inn á milli. Þegar mikið er um að vera í náttúrunni, eins og síðustu daga og vikur, þá fari hins vegar margar klukkustundir í vaktina. Stundum meira og minna allur sólarhringurinn. Þegar eldgosið brast á kl. 07:57 að morgni sunnudagsins 14. janúar var Jón Frímann á fótum. Hann var að setja upp nýja tölvu og fylgdist með atburðarásinni með öðru auganu.
„Ég er búinn að fylgjast með atburðarásinni á Reykjanesskaganum frá því hún byrjaði. Það er mikið um að vera núna og því miður lendir þetta allt á Grindavík núna. Þegar þessir atburðir voru síðast, á þrettándu öldinni þegar land var að byggjast, þá voru þessir atburðir allir í Eldvörpum og á þeim slóðum – en náttúran vill stundum gera þetta, að hoppa á milli svæða á nokkurra alda fresti. Það er greinilega verið að fylla upp í eitthvað gat sem hefur myndast þarna og þá lendir Grindavík því miður í þessu.“
Hvert sýnist þér framhaldið verða á þessum slóðum?
„Mér líst mjög illa á stöðuna eins og þetta er að þróast og þá þenslu sem nú er komin í Svartsengi. Ég hef verið að horfa á GPS-mælana og þetta er komið svo langt yfir það sem var 10. nóvember og 18. desember.“
Mælarnir eru ekki allir í takt á þessum slóðum.
„Þetta eru líklega tvær eða þrjár sillur í þessari eldstöð sem er kennd við Svartsengi. Hólfið við Svartsengi tæmdist ekki síðast. Það hljóp úr hólfinu vestan við, við Skipastígshraun. Það fór lengri leið og því tók aðdragandinn að eldgosinu um fimm klukkustundir.“
Jón Frímann segir ástæðu þess að gosin standi stutt yfir, að þrýstingurinn falli fljótlega. Þá hefur hann verið að velta því fyrir sér hvort kvikugangurinn sem myndaðist 10. nóvember 2023 sé einhvers konar stífla í kerfinu en gosin tvö, þann 18. desember og 14. janúar, hafa bæði komið upp austan við kvikuganginn. Hann segir að jarðvísindamenn verði að rannsaka það, hann hafi ekki svörin á reiðum höndum.
Eldvirknin leitar suður
Að sögn Jóns Frímanns er eldvirknin að leita suður með kvikuganginum sem opnaðist í gosinu í Sundhnúkagígum 18. desember og hann heldur að, því miður, að hætta sé á að það gjósi næst sunnar og gossprungurnar muni leita eftir sigdölum sem mynduðust 10. nóvember og 14. janúar og liggja í jöðrum þeirra.
„Því miður held ég að þetta fari þarna suður með og út í sjó, eins langt og það kemst. Síðan byrji það aftur norðanvið. Þetta er ekki alveg búið. Ég var að vonast til að þetta færi eftir sömu leiðinni og þetta gerði fyrir 2.400 árum, þegar það beygði af leið við Hagafell og fór vestan við Gálgakletta og þar niður með. Þá stoppaði þetta rétt norðan við bæinn.“
Þegar eldgosin hafi fyllt í þær sprungur sem þarf í Sundhnúkagígaröðinni og við Grindavík þá sé möguleiki á að virknin færist annað og þá gjósi í Eldvörpum og á svæðinu vestan Grindavíkur.
Aðeins séð eitt gos á Reykjanesskaganum með berum augum
Jón Frímann náði að komast suður og sjá fyrsta gosið í Geldingadölum en hefur ekki séð það sem gosið hefur síðan þá. Það er aðallega vegna þess að þau voru meira afskekkt og erfiðara að komast í þau. Þá hefur hann einnig verið búsettur í Danmörku og því erfiðara um vik að komast á gosstöðvarnar.
Aðspurður út í viðbrögð fólks við færslum hans á netinu þá segist Jón Frímann lítið láta það hafa áhrif á sig. Náttúran fari sínu fram og hann sé ekki að láta það á sig fá þó netverjar bregðist misjafnlega við því sem hann lætur frá sér fara. „Náttúran hefur skoðanir manna að engu.“
Eftir gosið í Eyjafjallajökli árið 2011 stofnaði Jón Frímann vefsíðuna eldstod.com þar sem hann hefur skrifað um eldgos og jarðhræringar. Hann segir að fram að þeim tíma hafi lítið verið skrifað um þetta málefni.
Erfitt að eiga við svona atburði
En aftur að Reykjanesskaganum. Jón Frímann segir þetta vera slæma þróun fyrst þetta byrjaði þarna í nágrenni Grindavíkur. „Það er erfitt að eiga við svona atburði, því þeir gerast svo sjaldan,“ segir hann. Þegar viðtalið við Jón Frímann var tekið var nýbúið að gefa úr loftmyndir sem sýndu jarðsig og sigdali í Grindavík. Jón Frímann hefur áhyggjur af því að frekari landbreytingar verði í Grindavík í næsta atburði og land sökkvi meira en nú er orðið.
Hver finnst þér tímaramminn á þessum atburðum við Grindavík vera? Erum við að fara að sjá atburði mánaðarlega?
„Tímaramminn virðist vera þrjátíu dagar plús átta dagar í skekkju miðað við síðustu tvö gos – en Svartsengi er orðið svo þanið að ég held að það verði styttra í það. Þegar Svartsengi hleypur þá byrjar það með kröftugum jarðskjálfta, mér þykir það líklegast en hvenær það gerist veit ég ekki. Það er erfitt að segja til um það.“
Tappi við Sýlingafell
Jón Frímann telur að það sé einhver tappi við Svartsengi sem heldur aftur af kvikunni við Sýlingafell. „Hann heldur bara ákveðið lengi og þá brestur hann. Hann brast síðast 10. nóvember og svo hljóp úr Svartsengi 18. desember en svo var allt lokað síðast. Ég veit ekki af hverju þetta er orðið svona núna en því miður er þessi staða ekki góð fyrir Grindavík.“
Spurður út í það hvað sé að eiga sér stað skammt undan landi við Reykjanestá segir Jón Frímann að hann telji það ekki vera gikkskjálfta. Þar sé frekar kvika á ferðinni að gera sig klára í að gjósa. „Ég þekki ekki dýpið þarna en ég vona að það haldi svo ekki verði sprengigos.“
Úr færslum frá Jóni Frímanni
2. nóvember 2023
Hérna er jarðskjálftavirknin síðustu þrjá daga. Sýnist að þetta boði meiriháttar vandræði fyrir Grindavík og nágrenni þegar eldgos hefst þarna.
9. nóvember 2023
Það er spurning hvort að þessi jarðskjálftahrina sé upphafið af eldgosi í eldstöðinni Reykjanes. Ég er að sjá mikið suð á mælum hjá mér á Hvammstanga í 187 km fjarlægð frá upptökunum, sem er óvenjulegt.
17. desember 2023
Þessi jarðskjálftavirkni boðar að það sé meira að fara að gerast sýnist mér. Ég hef séð þetta nokkrum sinnum áður og þetta endar í flestum tilfellum í mikilli jarðskjálftavirkni og stundum í eldgosi. Það er áhugavert hversu mikil jarðskjálftavirkni er í sigdalnum.
18. desember 2023
Mér sýnist að þetta sé að byrja við Grindavík. Hvort að það verður eldgos verður að koma í ljós en mér þykir það líklegt. Þetta getur alltaf stoppað en mér þykir það ekki líklegt miðað við stöðu mála núna.