Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Náttúran er heillandi
Sunnudagur 25. júlí 2010 kl. 17:21

Náttúran er heillandi

Snæfellsnesið heillar greinilega fleiri en blaðasnáp frá Víkurfrétt­um. Í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, nánar tiltekið á Hellnum er Gestastofa, sem geymir enn eina Suðurnesjakonuna en þar vinnur Guðrún Ágústsdóttir sem landvörður á sumrin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Starf mitt í þjóðgarðinum felst ekki einungis í því að vinna á Gestastofunni við fræðslu og upplýsingagjöf, heldur erum við landverðirnir einnig við eftirlit og umhirðu í öllum þjóðgarðinum. Síðan erum við líka með skipulagðar gönguferðir nokkrum sinnum í viku. Hellnar eru ekki innan þjóðgarðsins en ströndin milli Arnarstapa og Hellna er friðland í umsjón þjóðgarðsins. Svo er einnig um Búðir“, segir Guðrún en á veturna er hún sjúkraliði í höfuðborginni og býr á Seltjarnarnesi.

Gestastofan er forvitnileg fyrir þá ferðalanga, sem vilja fræðast um lífið þarna fyrr á tímum. Þetta var harðbýlt svæði en engu að síður bjuggu hundruð íbúa þarna í þurrabúðum, sem enn má sjá leifar af þegar genginn er göngustígurinn á milli Arnarstapa og Hellna og víðar. Einhver stærsta verstöð landsins var á Hellnum og einnig nokkur grasbýli.


Lærði ferðamálafræði

En forvitnumst nánar um Guðrúnu; „Já ég fór í fjarnám frá Háskólanum að Hólum í Hjaltadal og lærði þar ferðamálafræði. Landsbyggðin hefur alltaf heillað mig“, segir Guðrún brosandi. „Ég ákvað að taka Diploma í ferðamálafræðum dreifbýlis frá Háskólanum að Hólum í Hjaltadal. Það gerði ég mikið til að hafa meiri möguleika á vinnu úti á landsbyggðinni og mér leist vel á þetta nám. Nú svo hef ég sjálf alltaf ferðast mjög mikið um landið. Með diploma náminu fékk ég einnig landvarðar- og staðarvarðarréttindi“, segir hún.
Guðrún ólst upp í Keflavík, sem þá var mikill útgerðarbær og henni líður best þegar hún er nálægt hafinu. Hafið umlykur Guðrúnu á Snæfellsnesi en einnig fjara, fjöll, ár, fossar, hraun, jökull og svo miklu meira. Náttúran er einstaklega hrein og falleg á Nesinu. Hún fær væntanlega að haldast þannig um ókomin ár, því sveitarfélagið er metnaðarfullt á sviði umhverfisverndar og hefur fengið alþjóðlega umhverfisvottun, sem kallast Green globe.

„Þegar ég var í náminu sótti ég um að komast hingað í verknám og fékk það og nú er ég komin aftur hingað. Þetta er semsagt annað sumarið mitt hér. Börnin mín tvö eru orðin það fullorðin að ég er frjáls á sumrin en ég bý með fleirum landvörðum á Gufuskálum. Mér líður bara svo vel hér, það er svo friðsælt hérna og svo heillandi náttúra og mikil saga. Það tekur mig nokkra daga að ná mér niður þegar ég kem hingað í byrjun sumars. Svo er eins og ég tengist jörðinni betur, róast niður og nýt þess að vera hérna upp á hvern dag. Sama hvernig viðrar en sumarið í sumar hefur verið einstaklega gott á Snæfellsnesi“, segir Guðrún. Starfsemin í Gestastofu heillar Guðrúnu og gefur ferðamönnum marga skemmtilega möguleika, td. er boðið upp á og skipuleggur Gestastofa skoðunarferðir í Vatnshelli, sem er alveg einstök upplifun.


Blíðviðri í sumar


Blaðasnápur getur samsinnt þessu með góða veðrið á Snæfellsnesi en hún hefur verið í tjaldvagni hérna á aðra viku með blíðviðri upp á næstum hvern einasta dag. Aðeins örlítil bleyta hefur vætt jörðina en gróðurinn þarf jú líka sitt!

Það eru ótal margir fallegir staðir til að skoða á Snæfellsnesi. Við sjálf byrjuðum á því að gista í „krika Snæfellsness“ þ.e. í nokkra daga á Hótel Eldborg en þar er frábær aðstaða fyrir ferðafólk. Svo var ferðinni heitið á tjaldstæðið að Görðum, sem einnig er sérlega skemmtilegt tjaldstæði og mun nær Jöklinum. Aðstaðan þar er fyrir þá sem kjósa rólegheit og rafmagnsleysi.

Veitingastaðir eru nokkrir á Snæfellsnesi, meðal annars á Hótel Eldborg og í Langaholti að Görðum, girnilegur matur. Svo auðvitað eru Hótel Búðir þarna rétt hjá og fleiri veitingastaðir bíða manns einnig á Arnarstapa og Hellnum.

Þegar Guðrún Ágústsdóttir talaði um dvöl sína á Nesinu á sumrin þá varð hún fallega dreymin á svip og ekki að undra, því umhverfið er einstaklega heillandi í kringum Jökulinn. Við kveðjum Guðrúnu og óskum henni góðrar sumardvalar á Snæfellsnesi.