Náttborð úr majónesdós og bræðralag í FS
„Þetta er bara hugvitskeppni þar sem allt gengur út á að gera sem mest virði eða gagn úr einum hlut, “ segir Jón Gunnar Sæmundsson sem er einn af þeim FS-ingum sem fóru með sigur af hólmi í Snilldarlausnum Marel, hugmyndasamkeppni framhaldsskólanna.
Allir framhaldsskólanemendur á landinu máttu taka þátt en keppnin gengur út á að gera sem mest virði úr einum ákveðnum einföldum hlut. Í ár var það dós sem lék aðalhlutverkið og skipti engu hverskonar dós um var að ræða. Hópur stráka sem eru á málm- og vélstjórnarbraut skólans gerði sér svo lítið fyrir og sigruðu í keppninni en hópurinn bjó til fjölnota náttborð með innbyggðu ljósi með dimmi, hátölurum, hleðslutæki fyrir síma og hátalarasnúru fyrir síma. Náttborðið var búið til úr majonesdós sem nemendur fengu úr mötuneyti skólans. Auk Jóns Gunnars voru þeir Guðmundur Hermann Salbergsson, Haukur Örn Harðarson og Sigurður Jón Sigmundsson sem skipuðu sigurliðið. Þeim til halds og trausts var Ívar Valbergsson vélstjórnarkennari. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og afhenti Katrín Jakobsdóttir ráðherra drengjunum verðlaunin sem námu 100.000 kr. Við fengum Jón Gunnar, einn af sigurvegurunum í keppninni, í létt spjall til okkar.
Jón Gunnar hóf ekki nám í vélstjórn þegar hann byrjaði skólagöngu sína í FS en hann fór nýlega að sýna faginu áhuga og ákvað að kýla á vélstjórnarnámið fyrir stuttu. „Ég var ekki mikið að fikta í vélum og tækjum þegar ég var strákur. Hinir strákarnir eru flestir uppaldir í bílskúrunum hjá feðrum sínum en þannig var það alls ekki með mig, þó svo að ég sé að finna mig mjög vel í náminu“ segir Jón Gunnar sem var mikið í íþróttum og þá aðallega í fótbolta á sínum yngri árum. „Ég hef alltaf verið mikill íþróttastrákur og æft fótbolta síðan ég var polli, mjög virkur í félagslífinu og spila einnig póker reglulega,“ en í stuttu máli segir hann áhugamálin vera fótboltann og vinina.
Jón Gunnar og fleiri strákar í FS stofnuðu svokallað bræðralag í byrjun annar sem vakið hefur athygli í fjölmiðlum en lögreglan þurfti að hafa afskipti af samkvæmi á þeirra vegum fyrr á árinu.
„Omega Delta Phi er svokallað bræðralag, sem var stofnað í Bandaríkjunum fyrir mörgum árum og við ákváðum að taka upp á þessu hérna heima og sjá hvernig fólk myndi taka í það. Við erum búnir að standa fyrir nokkrum viðburðum hingað til og allt gengið mjög vel, markmið okkar er einungis það að krydda félagslífið hérna á Suðurnesjunum aðeins og þjappa fólkinu betur saman,“ segir Jón Gunnar en á viðburðum þeirra eru meðal annars dyraverðir til þess að tryggja að allt fari vel fram.
Varðandi sigurverkefni þeirra félaga þá segir Jón Gunnar að smíðin hafi ekki tekið svo langan tíma og undirbúningurinn var ekki svo ýkja langur. „Við vorum að klára þetta á síðasta degi og vorum í raun ekki búnir að liggja mikið yfir þessu. Við settumst yfir þetta góða kvöldstund og þá fæddist hugmyndin. Við erum líka með frábæran kennara í honum Ívari og hann hefur reynst okkur vel, þó svo að hann hafi ekki mátt koma að smíðinni með neinum hætti.“
Hver er mesti uppfinningamaðurinn í hópnum? Ég myndi segja að Gummi hafi lagt mestu hugsunina í þetta.
Það besta við FS er: Bara fínasti skóli, félagslífið er flott og það er alltaf nóg um að vera. Svo erum við auðvitað með Hebu á skrifstofunni.
Besti íþróttamaður skólans? Ætli það sé ekki hann Sigurbergur félagi minn, ótrúlegir hæfileikar þar á bæ.
Ferðu á jólahlaðborð? Já ætli það ekki.
Tónlistin sem þú fílar? Eminem hefur alltaf verið minn maður og verður það ávallt, annars hlusta ég á nánast allt.
Þátturinn þinn? Friends verður ávallt á toppnum, en núna er ég mest spenntur fyrir Big Bang Theory og Californication.
Eftirlætis kvikmynd? The Shawshank Redemption er auðvitað með betri myndum sem komið hafa út en annars er engin ein mynd sem stendur upp úr. Fór á The Inbetweeners í bíó um daginn, drullufyndin mynd þar á ferð.
Matur og skyndibiti sem eru í uppáhaldi? Jólamáltíðin er alltaf best, sama hvað er á boðstólum, og skyndibitinn, ætli það sé ekki Olsen?
Drykkur sem verður oftast fyrir valinu? Ískalt kók í dós.
Uppáhalds hlutur? Ætli það sé ekki bara síminn?
Lið í enska: Grjótharður Manchester United maður.