Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nánd í litlum skóla og skýr markmið
Ólafur Jón Arnbjörnsson.
Miðvikudagur 11. júní 2014 kl. 13:33

Nánd í litlum skóla og skýr markmið

Fisktækniskóli Íslands kominn til að vera.

Margir kollegar Ólafs Jóns Arnbjörnssonar litu á hann í forundran þegar hann sagði þeim að hann ætlaði að segja starfi sínu lausu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja eftir nær 20 ár til að taka við skóla sem í fyrsta lagi var ekki til, í öðru lagi var ekki einu sinni á dagskrá um að koma á og í þriðja lagi í kreppu og niðurskurði. Í dag eru um 30 nemendur í tveggja ára fisktækninámi í dagskóla Fisktækniskóla Íslands og gert er ráð fyrir nýjum hópi tólf nemenda næsta haust hér í Grindavík. Skólinn fékk formlega viðurkenningu 2012 eftir tveggja ára tilraunakennslu.

Afdrifaríkur fundur - ný menntun
Á fundi fulltrúa Fjölbrautaskóla Suðurnesja með fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og sveitarfélaga í Þorbirni í Grindavík snemma árs 2008 var tekin sú afdrifaríka ákvörðun að mynda með sér félagsskap um að stofna skóla í Grindavík sem hefði það að markmiði bjóða fram nám og fræðslu á sviði veiða, vinnslu og fiskeldi á framhaldsskólastigi. Undirbúningur hafði staðið yfir um all nokkuð skeið og leitað fanga bæði utanlands og ekki síst reynt að læra af þeim tilraunum sem hafa verið gerðar innan lands, en segja má að lítið hafi verið í boði frá því að nám við gamla Fiskvinnsluskólann lagðist af. „Lagt var í mikið þróunarstarf við hönnun og útfærslu námsbrauta auk gerðar náms og kennsluefnis. Námið var í raun hannað frá grunni í samstarfi og samráði við starfsfólk og fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskeldi, en einnig var gert ráð fyrir því að verklegt nám færi að mestu fram á vinnustað undir tilsjón – í stað þess að byggja um verkstæði með tilheyrandi kostnaði. Hér var því ekki einungis um nýjung í menntunarmálum í Grindavík heldur farin að mörgu leyti ný leið í starfsmenntun á íslandi,“ segir Ólafur Jón, skólastjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki njóta samstarfs Fisktækniskólans.

Langtímasamningur á borðinu
Eitt af meginmarkmiðum skólans frá upphafi hefur verið að vinna bæði námsbrautir og námsefnið með því atvinnulífi sem ætlað er að þjóna. Samhliða stofnun skólans opnaði Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum útibú í Grindavík, en Fisktækniskólinn tók einnig að sér nám í faggreinum netagerðar samkvæmt samningi við FS. „Þrátt fyrir mikinn niðurskurð síðustu ára er mikill áhugi menntamálayfirvalda á að festa skólann í sessi til lengri tíma. Nú er verið að leggja lokahönd á langtímasamning með öflugum stuðningi hagsmunaaðila og má þar með segja að skólinn sé endanlega búinn að slíta barnsskónum og geti litið fram til bjartari tíma,“ segir Ólafur Jón.

Frá heimsókn í Fisktækniskólann.

Á þriðja þúsund manns notið fræðslu
Mikil og öflug starfsemi hefur síðustu árin verið á sviði endurmenntunar og hafa á þriðja þúsund starfandi fólk í greininni sótt námskeið sem skólinn hefur staðið fyrir eða komið að í samstarfi við aðra fræðslu aðila, svo sem MSS. „Þá höfum við í auknum mæli sinnt fræðslu í einstökum fyrirtækjum og meðal annars séð um nýliðafræðslu fyrir Granda og fleiri stærri fyrir tæki. Við skólann starfa nú sex starfsmenn í fjórum stöðugildum, auk stundakennara. Mikil vinna er enn unnin við námsefnisgerð, enda lítið til aðgengilegt í þessum efnum.“ Sl. vor var auglýst nýtt námsframboð við skólann, annars vegar eins árs nám fyrir Marel–vinnslutækna og hins vegar eins árs nám í Gæðastjórnun. Ólafur Jón segir mikla eftirspurn eftir fólki með góða þekkingu í gæðamálum í matvælaiðnaði og þar sé vinnslan engin undantekning. „Marel-vinnslutæknabrautin er afurð samstarfs okkar við MAREL og er það sérstök ánægja að kynna þetta nám nú næsta haust. Það á ekki að þróa nám fyrir atvinnulífið heldur með því.“

Ljúki námi í heimabyggð
Námið er byggt þannig upp að nemandinn getur valið sér námslengd og samsetningu sem hentar hans framtíð, hvort heldur það er til ákveðinna starfa í greininni eða til frekara náms. Möguleiki er til að bæta við sig, hvort heldur það er til frekara framhaldsnáms eða háskólanáms er því til staðar og í undirbúningi er m.a. aðgangur nemenda að háskólabrú í samstarfi við Keili og sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri. „Eitt af því sem einnig hefur verið lagt var upp með og kynnt frá byrjun eru þau áform að koma á neti fræðsluaðila sem saman byðu upp á nám í Fisktækni,“ segir Ólafur Jón. Þannig geti námið verið í boði með reglubundnum hætti um land allt og möguleikar einstaklinga til að ljúka námi í heimabyggð á þessu sviði væri fyrir hendi sem víðast. Námið hafi verið kynnt þannig frá 2009 en segja má að það sé fyrst núna sem þetta er að verða að veruleika.

Frá námsaðstöðu Fisktækniskólans í Veiðarfæragerðinni.

Möguleiki á mati og styttingu náms
„Á vordögum og fram á sumar mun starfsfólk í veiðum, vinnslu og fiskeldi á Norðurlandi vestra vera boðið í svokallað raunfærnimat og reynsla þeirra þannig metin til styttingar á námi,“ segir Ólafur Jón. Verkefnið sé unnið í samstarfi við fjölmarga fræðsluaðila á svæðinu í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Miðað við viðtökur verði ekki færri en 40 sem hefji nám næsta haust. Almennar greinar séu kenndar á hverjum stað auk vinnsutaðanáms, en faggreinar kenndar í dreifnámi frá Grindavík, auk þjónustu við vinnustaðanám. „Fleiri verkefni af þessum toga munu fara af stað á næstu misserum og mun það án efa verða til þess að auka áhuga framhaldsskólanema á þessu sviði. Þá er rétt að geta þess að Fiskifélag Íslands hefur samþykkt að styrkja skólann til kynningar á náminu á landsvísu til næstu þriggja ára.“

Ólafur Jón ásamt nokkrum nemenda sinna.

Varð að standa við stóru orðin
Ólafur Jón segir að vissulega sé gamli skólinn sinn, FS, og hafi verið mjög góð menntastofnun með hreint út frábært starfslið. „Stundum þarf maður bara að fylgja eðlisávísuninni. Við getum ekki ætlast til þess að breytingar í skólakerfinu gerist bara að sjálfu sér og að einhver annar eigi að gera það. Ég hef alla tíð haft mjög ákveðnar skoðanir á því hvað þarf til að byggja upp nýtt námsframboð á sviði starfsmenntunar og talað um það opinberlega. Ætli það hafi ekki bara verið kominn tími til að standa við stóru orðin?“ Hann segist hafa verið svo heppinn af fá með mér í þennan leiðangur alveg einstakt starfsfólk með góða menntun og reynslu úr greininni. Ekki síst alveg frábæran stuðning og hvatningu greinarinnar og hagsmunaaðila auk Grindvíkinga. „Ég þekki persónulega alla mína nemendur í dagskóla og ég tala við þau flest öll daglega. Við erum lítill skóli í Grindavík og höfum byggt upp andrúmsloft meðal starfsmanna og nemenda sem ég held að sé einstakt. Nemendum líður vel hjá okkur og okkur hefur tekist að mæta þeim þar sem þeir standa hvert fyrir sig. Nánd í litlum skóla og skýr markmið gera staðinn skemmtilegan í vinnu og er sennilega einnig forsenda þess að fyrir fjölmarga nemendur til ná árangri,“ segir Ólafur Jón.

Úr starfsemi Fisktækniskólans.

Góð framtíð í fiski
Lengi hefur loðað við sjávarútveginn á Íslandi að hann sé svolítið fjandsamlegur menntun og að skólaganga sé jafnvel til óþurftar frekar en hitt. Ólafur Jón segir að þetta sé að mestu liðin tíð en það komi sér hins vegar þægilega á óvart hversu áhugasamir og framsæknir stjórnendur í sjávarútvegi séu um land allt þegar kemur að menntun og þjálfun starfsfólks. „Einnig hefur gríðarlegur áhugi verið hjá starfandi fólki í greininni um allt land sem vill taka upp þráðinn og mennta sig frekar innan greinarinnar. Verkefnið næstu árin verður því að kynna námið um land allt og benda ungu fólki á að það geti verið framtíð í fiski. Það er ekki bara það að við erum að framleiða mjög eftirsótta hágæða matvöru, einnig eru möguleikarnir í framleiðslu og vöruþróun ótrúlega fjölbreyttir og þar með menntunarmöguleikar á öllum skólastigum,“ segir Ólafur Jón. 

VF/Olga Björt