Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Námsráðgjafar orðnir ómissandi
Svava Bogadóttir, skólastjóri Stóru-Vogaskóla.
Sunnudagur 19. janúar 2014 kl. 08:00

Námsráðgjafar orðnir ómissandi

Aðbúnaði og úrræðum barna oft ábótavant.

Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta og tekin verður fyrir næstu vikur.

Námsráðgjöf í Stóru-Vogaskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svava Bogadóttir, skólastjóri Stóru-Vogaskóla, svaraði fyrir hönd skólans vegna þess að námsráðgjafi þeirra var nýbyrjaður. Hún segir að fráfarandi námsráðgjafi hafi verið með sjálfstyrkingarnámskeið fyrir nemendur og núverandi taki á móti þeim í sjálfstyrkingarviðtöl. Stundum sé um að ræða smávægileg mál þar sem börn til dæmis komi í byrjun dags og svo aftur í lok dags til að ræða hvernig gekk. „Þetta er svona lausnamiðað og námstengt. Börnin vilja fylgja hópnum en ráða stundum ekki við það.“

Fólk almennt meira vakandi yfir líðan barna

Svava segir hlutverk námsráðgjafa hafa breyst þannig að áður sinntu þeir námsráðgjöf á eldri skólastigum en nú þyki þeir ómissandi í grunnskólanum. Það sé líklega vegna þess að fólk sé almennt orðið meira vakandi yfir líðan barna og nauðsyn ráðgjafar við nám, en áður.  Stundum þurfi nemendur aðeins að fá smá spjall um námið eða einhver önnur mál.

Metið sé hvort nemendum sé beint fyrst til námsráðgjafa áður en hann er látinn bíða kannski í marga mánuði eftir sálfræðingi. „Ef barn þarf aðstoð sálfræðings þarf að fylla út alls kyns beiðnir og lista ef um greiningu eða ráðgjöf er að ræða. Ef leita þarf til námsráðgjafa kemur beiðni frá foreldrum eða umsjónarkennara um að spjalla aðeins við nemandann og grennslast fyrir um hvort hægt sé að leysa málið eða því vísað áfram,“ segir Svava.

Of löng bið eftir úrræðum

Reiðistjórnunarmál eða mál af geðrænum toga eru erfiðust að mati Svövu. Þeim málum sé sinnt sérstaklega hjá þeim. „Skólastjórnendur á Suðurnesjum skrifuðu bréf til ráðherra mennta-, heilbrigðis- og félagsmála fyrir þremur árum til að mótmæla löngum biðlistum á BUGL. Í framhaldinu sátum við fjölmennan fund með fulltrúum ráðuneytanna þar sem þessi mál voru rædd. Við töldum aðbúnað og úrræði fyrir börn á grunnskólaaldri með geðraskanir ábótavant og höfðum þá í huga truflun eða veikindi sem skerða starfsgetu þeirra verulega.“

Hún segir afleitt að börn á Íslandi sem eru með geðræn vandamál þurfi að bíða eftir læknisaðstoð jafnvel í mánuði eða ár. „Eigum við starfsfólk skóla að sinna barni í slíkri stöðu og erum við í stakk búin til þess eða er það heilbrigðiskerfið sem á að gera það? Ennþá eru langir biðlistar!“ segir Svava með áherslu.

Dýrkeyptara að fresta meðhöndlun

Við þetta bætir Svava að yfirleitt sjái fólk ekki muninn á því að láta t.d. fótbrotið barn bíða eða barn sem á við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Bæði geti skaddast um aldur og ævi. „Hver vika og hver mánuður skiptir máli í lífi þessara barna og við fullorðna fólkið, sem eigum að gæta hagsmuna þeirra, getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við slíka meðferð. Því má svo við bæta að það er örugglega mun ódýrara fyrir samfélagið að sinna börnunum ungum en að fresta meðhöndlun þar til seinna, því fyrr sem tekið er á málum því minni líkur eru á vandamálum hjá þessum einstaklingum seinna á ævinni. Stundum verður það hinn mesti harmleikur bæði fyrir þá sjálfa og samfélagið, segir Svava. 

VF/Olga Björt