Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 22. maí 2001 kl. 10:17

Námskeið í skógrækt

Skógræktarfélag Suðurnesja stendur fyrir námskeiði í skógrækt dagana 6. og 11. júní í Frímúrarasalnum, Bakkastíg 16, Njarðvík. Fyrirlesari er Björn Jónsson og nefnist námskeiðið „Skógrækt áhugamannsins“. Fjallað verður um marga hagnýta þætti fyrir áhugafólk um skógrækt, ekki síst sumarhúsaeigendur sem vilja ná góðum árangri fljótt og vel.
Björn hefur um árabil stundað skógrækt með góðum árangri á jörðinni Sólheimum í Landbroti. Hann er vinsæll fyrirlesari og hefur skrifað greinar um skógrækt í Skógræktarritið. Þátttökugjald er 3000 kr. og kr. 2000 fyrir félagsmenn. Það hefst kl. 19:30 bæði kvöldin og lýkur kl. 22:30. Innifalin eru vegleg námskeiðsgögn með gagnlegum leiðbeiningum, kaffi og kleinur. Þeir sem hafa áhuga á að vera með skrá sig hjá Halldóri í síma 894-3008 eða Magnúsi í síma 698-2498 fyrir 31. maí. Stjórn Skógræktarfélags Suðurnesja hefur ákveðið að eftirleiðis verði unnið eftir kenningum Björns og er þetta námskeið því sérlega áhugavert fyrir félagsmenn.
Þess má geta að skógagöngur Skógræktarfélags Íslands hefjast 31. maí nk. með göngu um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Suðurnesja. Gangan hefst við Rósaselsvötn kl. 20:30. Boðið er uppá kaffi og meðlæti að göngu lokinni.
Aðalfundur Skógræktarfélgags Suðurnesja var haldinn fyrir skömmu og þá var ný stjórn kosin. Konráð Lúðvíksson lét af formennsku en hann hefur gengt því embætti frá því að félagið var endurvakið árið 1995. Hann hefur nú tekið sæti meðstjórnanda en nýr formaður var kosinn Halldór Magnússon, Sigurjón Þórðarson varaformaður, Björg Sigurðardóttir ritari og Magnús Sigurðsson gjaldkeri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024