Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 22. desember 1999 kl. 20:11

NÁMIÐ HÁLMSTRÁ Í BARÁTTUNNI VIÐ KRABBANN!

Ástríður Helga Sigurðardóttir lýkur guðfræðinámi í sumar. Hún hefur ekki farið auðveldustu leiðina í gegnum háskólanámeið: Ástríður Helga Sigurðardóttir er Skagfirðingur en hefur búið í Keflavík í 25 ár. Foreldrar hennar eru Sigurður Einarsson og Helga Steindórsdóttir en þau bjuggu á bænum Fitjum í Lýtingsstaðahreppi þar sem Ásta, eins og hún er alltaf kölluð, er fædd og uppalin. Ásta hefur löngum farið ótroðnar slóðir í lífinu. Hún er með próf á vörubíl og rútu og fór í framhaldsnám á fullorðinsaldri. Hún greindist með krabbamein rétt rúmlega fertug, skagfirsk þrjóska hefur fleytt henni í gegnum erfiðleikana og nú er hún að ljúka fimm ára guðfræðinámi. Silja Dögg Gunnarsdóttir heimsótti Ástu á heimili hennar og ræddi við hana um lífið og tilveruna. Kom suður á vertíð sem stendur enn „Mamma og pabbi eignuðust sjö börn saman og pabbi átti tvö börn fyrir. Þau eignuðust e.t.v. meira af börnum og skuldum heldur en búfé. Þegar ég var þriggja mánaða fór pabbi því suður á Keflavíkurflugvöll að vinna til að grynnka á skuldum. Hann ætlaði að vera í eitt ár en árin urðu tíu. Hann kom heim þegar ég var tíu ára og dó þegar ég var 15 ára. Ég kynntist pabba því frekar lítið. Mamma var aðalbóndinn á heimilinu“, segir Ásta. Flest systkinin fluttu suður og Ásta segir að þau hafi upphaflega komið vegna þess að faðir þeirra var hérna. Á tímabili voru þau fimm fyrir sunnan en nú eru þær tvær eftir systurnar, Ásta og Anna. „Ég kom hingað árið 1974 þá 21 árs gömul. Ég fór á vertíð og vertíðin stendur enn“, segir Ásta og hlær. Hún giftist Bjarka Leifssyni en þau skildu eftir 10 ára hjónaband. Saman eignuðust þau tvö börn, Ásgerði Bjarklind og Einar Birgi. Auk þeirra skipar tíkin Tekla heiðurssess á heimilinu. Meiraprófið nytsamlegra en saumadótið Ásta hefur fengist við eitt og annað í gegnum tíðina. Lengst af vann hún á skrifstofunni hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Hún viðurkennir að hafa ekki alltaf farið hefðbundnar leiðir. „Kunningjakona mín bað mig einu sinni um að koma í saumaklúbb, ég harðneitaði og fór í meiraprófið. Það fannst henni fáránlegt og sagði að ég myndi aldrei koma til með að nota meiraprófið. Ég sagði henni að ég væri viss um að ég myndi nota það meira en þetta saumadót. Það kom á daginn að ég hafði rétt fyrir mér því ég hef keyrt rútur af og til gegnum árin ýmist með annarri vinnu eða sem aðalstarf.“ Einstæð móðir í skóla og fullri vinnu Framhaldsskólaganga Ástu hófst árið 1976 þegar hún gekk með fyrra barn sitt, en þá fór hún í öldungadeild F.S. Hún segir að hún hafi ekki verið búin að ákveða að fara í skóla, hvað þá að hefja langskólanám á þessum tíma, en alltaf þegar hún heyrði auglýsingar í útvarpinu á haustin að skólarnir væru að byrja fékk hún fiðring í magann. „Kunningjakona mín bað mig að koma með sér í Námsflokkana. Ég fór með henni og tók líka eitt fag í öldungadeildinni. Hún hætti en ég hélt áfram.“ Ásta eignaðist sitt annað barn 1979 og tók sér þá hlé frá námi en byrjaði svo aftur af fullum krafti 1986. Hún útskrifaðist sem stúdent 1992 af félagsfræði- og hagfræðibraut og þriggja ára tölvufræðibraut og tveggja ára viðskiptafræðibraut. Allan tímann var hún í fullri vinnu og aukavinnu og sá um heimili og tvö börn. „Hjá mér er aldrei neitt sem heitir í ökkla, það er alltaf upp að eyra“, segir Ásta og brosir. Ætlar að verða prestur Þegar Ásta var komin með stúdentspróf langaði hana til að læra eitthvað meira. En það kostar peninga svo hún vann eins mikið og hún orkaði til að eiga fyrir náminu. „Mér fannst vera rugl að halda ekki áfram í skóla þegar ég var búin með stúdentinn. Stúdentspróf er í raun bara áfangi til að halda áfram í skóla, það gefur engin réttindi eitt og sér“, segir Ásta. Hún hóf guðfræðinám í Háskóla Íslands 1995 en þá var hún orðin 42 ára. „Ég sá að ég var að brenna út á tíma ef ég ætlaði að vinna við mitt fag í nokkur ár. Það tók mig nokkurn tíma að finna út hvað ég vildi læra. Ég var löngu læknuð af því að fara í viðskiptafræði eða hagfræði, ég hef alltaf haft meiri áhuga á því mannlega. Guðfræði kom því sterklega til greina“, segir Ásta. Æfði mig að tóna bakvið hús Ásta segir að það hafi e.t.v. blundað lengi í henni að verða prestur og séra Bjartmar Kristjánsson, sem var prestur á Mælifelli á árunum 1947-68, hafði sín áhrif á að hún fór í guðfræðinámið. „Bjartmar var stórmerkilegur karl. Mér fannst hann alltaf vera svona prestur eins og prestar eiga að vera. Ég veit að prestar eru bara venjulegir menn en þegar ég horfði á hann í hempunni og hlustaði á hann tóna blessunarorðin, þá fannst mér sem hann væri sá næsti við guð. Hann var svo tignarlegur og gerði þetta svo vel. Mér fannst hann vera stórkostlegur. Þegar heim kom eftir messu fór ég alein út fyrir hús þar sem var öruggt að enginn heyrði í mér því það var ekki árennilegt að láta bræður sína heyra í sér. Þeir höfðu það fyrir sið að lumbra á mér ef ég var ekki eins og þeir vildu að ég væri. Ég æfði mig að tóna bak við hús og hætti ekki fyrr en mér fannst ég hafa náð séra Bjartmari alveg fullkomlega. Kannski var þetta byrjunin“, segir Ásta og yppir öxlum. Hún segir að messur í þá daga hafi haft önnur áhrif en í dag. „Þá voru engin bíó og ekkert sjónvarp og þetta var okkar helsta skemmtun. Maður horfði bara á prestinn og fylgdist með og enginn dottaði. Þá voru allir stilltir í messu“, segir Ásta og glottir. Óskemmtilegir skemmtistaðir Aðspurð segir Ásta að henni finnist það ekki vera óþægileg tilhugsun að verða prestur og þurfa þar með að sýna gott fordæmi. Hún segist alltaf hafa reynt að vera góð fyrirmynd fyrir börnin sín og hún hafi t.d. alltaf verið heima um helgar. „Ég vann á skemmtistöðum um tíma og sú reynsla læknaði mig af því að vilja fara út að skemmta mér. Ég sá þá hve margir voru í raun ekki að skemmta sér. Undir það síðasta þurfti ég að taka á honum stóra mínum til að fara í vinnuna, standa þar á bak við borðið og hella ólyfjan í glös fyrir fólk sem maður vissi að hafði þörf fyrir eitthvað allt annað“, segir Ásta alvarleg í bragði. Fann ber í brjóstinu Rétt áður en jólaprófin í H.Í. hófust veturinn 1995, fann Ásta ber í brjóstinu og fór strax í skoðun til Konráðs læknis. „Ég fann berið mjög snemma því bæði mamma mín og systurdóttir dóu úr krabbameini 1994 og ég var farin að fylgjast mikið betur með mér. Konráð tók mér mjög vel og sendi mig strax í sýnatöku inn í Reykjavík. Ég fór svo í skurðaðgerð þann 30.nóvember 1995 þar sem illkynja æxli var fjarlægt úr brjóstinu.“ Næturnar voru verstar Ásta segir að þetta hafi verið henni ólýsanlegt áfall og henni fannst sem fótunum hefði verið kippt undan henni og hún svifi í lausu lofti. „Fyrstu dagana var ég lömuð af skelfingu. Næturnar voru verstar því þá var ég ein. Þetta var í svartasta skammdeginu og mér fannst myrkrið vara óhugnalega lengi. Sem betur fer á ég góða að og Margrét systir mín á Sauðárkróki hringdi strax í mig og sagði að hún væri að koma til mín. Hún hafði ekki fleiri orð um það, mætti á staðinn, hugsaði um börnin og þreif allt og bakaði fyrir jólin á meðan ég var á spítalanum. Hún er þannig manngerð að hún drífur í hlutunum þegjandi og hljóðalaust. Hún og Heiða systir senda mér enn þann dag í dag kökur fyrir jólin“, segir Ásta og gýtur augunum að úttroðnum smákökupokum á eldhúsborðinu. „Þær spurðu mig nú að því hvort þetta væri ekki örugglega í síðasta skipti“, segir Ásta hlægjandi og bætir við að skólasystkini hennar, sem af þessu vita, öfundi hana mikið af kökunum og spyrja gjarnan hvort Heiða og Margrét væru ekki til í að ættleiða þau. Undibjó eigin jarðarför Áður en Ásta fór í aðgerðina var hún sannfærð um að hún myndi ekki lifa hana af. „Þegar ég var andvaka eina nóttina kom þessi hugsun allt í einu, að ég kæmi ekki lifandi heim af spítalanum og ég fór að undirbúa mína eigin jarðaför. Þegar ég kom svo heim, eftir aðgerðina, kom til mín kona sem einnig hafði fengið krabbamein. Það var mjög gott að tala við hana. Hún sagði við mig, „þú hefur byrjað á því að magalenda, það er gott því þá liggur leiðin bara upp á við.“ Það reyndist rétt hjá henni. Samt var þetta skelfileg líðan og óþægilegar hugsanir sóttu á mig. Enn þann dag í dag velti ég fyrir mér hvort ég sé sloppin, það er eiginlega of gott til að vera satt.“ Námið bjargaði geðheilsunni Ásta byrjaði í geislameðferð eftir áramót en hélt samt áfram í fullu námi. Kristján Búason, prófessor og grískuskelfir, reyndist Ástu vel á þessum erfiðum tímum og tók óbeðinn að sér að sjá um hennar mál gagnvart skólanum. „Kristján á miklar þakkir skildar og það má segja að það sé honum að þakka að ég er í skólanum í dag. Hann fékk það í gegn að ég mátti taka prófin þegar mér hentaði og þurfti þá ekki að bíða fram í ágúst með að klára þau.“ Hún segir að það hafi verið bilun að halda áfram í fullu námi þrátt fyrir veikindin en hún hafi þurft á því að halda til að komast í gegnum þetta andlega. „Námið var hálmstrá sem ég hélt í. Allir sögðu við mig að þetta væri brjálæði og ég vissi það sjálf. Ég sagði við krabbameinslækninn minn að það væri miklu betra að velta sér upp úr forngrísku heldur en eigin veikindum. Hann sagði að það væri rétt upp að vissu marki“, segir Ásta. Lánasjóðurinn skelfilegur Ásta ber Lánasjóði íslenskra námsmanna ekki vel söguna. Kerfið þar virkar þannig að þegar námsmaður hefur náð prófunum, fær hann námslán - engar einkunnir, engir peningar. „Lánasjóðurinn gerir engan greinarmun á hvort fólk fái kvef í tvo daga eða hvort það lendi í alvarlegum hremmingum og þurfi því að fresta prófum fram á haust. Ég fékk hluta af námslánunum um veturinn því ég gat ekki tekið öll prófin vegna þess að ég var í geislameðferð og í fullu námi. Þetta er gífurlega gallað kerfi og ég hef ekki heyrt að það eigi að breyta þessu neitt“, segir Ásta og bætir við að fólk þurfi að vera vel stætt til að geta farið í skóla. „Vegna þessa hversu gallað þetta kerfi er, varð ég að pína mig áfram í skólanum sem varð til þess að ég endaði í rúminu og gat ekki klárað neina önn á réttum tíma. Ég varð því að taka 3-4 sjúkrapróf á hverju hausti til að fá námslán.“ Ásta segir að Reynir Katrínarson hafi hreinlega nuddað í hana lífinu þegar heilsan var sem verst. Góð heilsa er fjársjóður Nú sér Ásta loksins fyrir endan á náminu því hún stefnir á að útskrifast með embættispróf í guðfræði í júní árið 2000. Í þau rúmu fjögur ár, sem hún hefur lagt stund á guðfræðinámið, hefur hún aldrei tekið sér frí. Á vorin þegar skólanum lýkur hefur hún alltaf farið beint í fulla vinnu og einnig hefur hún alltaf unnið eitthvað með skólanum. Hún segist hafa notað jólafríin til að safna kröftum. Hvernig gastu þetta? „Ég gat það ekki, ég bara gerði þetta og ég þakka það uppeldinu sem ég fékk.“ Hvernig breyttist líf þitt eftir að þú greindist með krabbamein? „Úthaldið er miklu minna en áður og vefja- og slitgigtin versnuðu mikið við geislameðferðina. Hugsunarhátturinn hefur líka breyst og ég held að það gerist með flesta sem verða fyrir áfalli. Ég kann betur að meta það sem ég hef og ég held að ég röfli minna yfir smámunum. Góð heilsa er mikill fjársjóður og ég hugsa að margir sem hafa góða heilsu, geri sér ekki grein fyrir því hvað góð heilsa er dýrmæt gjöf.“ Neita mér ekki um nautakjötið Ásta segist ekki hafa breytt lifnaðarháttum sínum mikið þrátt fyrir veikindin. „Ég reyndi við lúpínuseiðið en það var ógeðslegt. Ég gafst upp á því og hugsaði með mér að ég yrði bara að lifa nokkrum dögum styttra. Ég tek Q10 en skólasystir mín benti mér á að það hefði reynst krabbameinssjúklingum vel. Margir skamma mig fyrir að borða ekki soja þetta og soja hitt en íslenska lamba- og nautakjötið er svo gott að ég legg það ekki á mig að fórna því“, segir Ásta. Hún segist ekki hafa komist í gegnum þetta tímabil í lífi sínu nema fyrir það að hún eigi svo góða að sem hafi hjálpað henni, bæði með lærdóminn og hið daglega amstur. „Ég er farin að hlakka til jólanna þó ég sé ekki farin að undirbúa neitt fyrir jólin. Þá get ég farið út að ganga með hundinn á hverjum degi, farið í kirkju, hvílt mig og gert það sem mig langar til“, segir Ásta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024