„Námið er erfitt, gefandi og skemmtilegt,“ segir Sigtyggur Kjartansson nemandi í MIT
Sigtryggur Kjartansson stundar nám við hinn virta háskóla MIT (Massachusetts Institute of Technology) í Cambrigde í nágrenni Boston í Bandaríkjunum. En skólinn er einn sá virtasti í heiminum. Sigtryggur á að baki afburðar feril sem námsmaður í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem hann dúxaði árið 2009. Auk þess hefur Sigtryggur verið fulltrúi Íslendinga á Ólympíuleikunum í efnafræði tvívegis eftir að hann hafði sigrað landskeppni Íslands í efnafræði árið 2009 og 2010. Gettu betur lið FS naut krafta Sigtryggs í þau þrjú ár er hann stundaði þar nám en auk þess er Sigtyggur liðtækur knattspyrnumaður og spilar á píanó.
Sigtryggur segir það hafa verið draum sinn að fara í nám til Bandaríkjanna allt frá 11 ára aldri. Hann hafi svo unnið að því jafnt og þétt og þegar uppi var staðið gat hann valið úr bestu háskólum sem völ er á í heiminum og varð MIT ofan á. Sigtryggur segir jafnframt það sem þurfi til að komast í svona skóla sé auðvitað að hafa góðan námsferil að baki, þó velur MIT nemendur aðallega eftir því hvort að skólinn muni henta þeim eða ekki. „MIT er mjög fjölbreyttur skóli, þú getur fundið allar týpur af fólki hérna, fóllk með öll möguleg áhugamál. Málið með MIT, ef það er eitthvað sem þú vilt gera, þá er leið til að gera það og fólk sem vill gera það,“ segir Sigtryggur aðspurður um félagslífið í skólanum.
Skólinn er í borginni Cambridge sem tilheyrir stór-Boston svæðinu og er íbúafjöldi rúmlega hundrað þúsund manns.
„Cambridge og Boston eru frábærar borgir, það er alltaf hægt að finna eitthvað að gera. Boston býr yfir mjög áhugaverðri sögu. Opinberar samgöngur eru til fyrirmyndar. Mér er hins vegar meinilla við umferðina, fólk virðist ekki virða umferðareglurnar og ökumenn eru mjög grimmir,“ segir Sigtryggur um kosti og galla þess að búa í Cambridge.
Menntun erlendis er oft erfið fjárhagslega og MIT er þar engin undantekning „Það er með MIT eins og alla topp háskóla í heimi að þó að verðmiðinn sé nokkuð stór þá eru þeir með frábæra fjárhagsaðstoð sem miðast aðeins við fjárhagsþörf. Það er enginn nemandi MIT á sérlegum námsstyrk eða íþróttastyrk.“
Skiljanlega fer mestur tími Sigtryggs í námið og áhugamálin og skemmtanir sitja því oft á hakanum, „Mestur tíminn fer í námið og ef mér áskotnast smá frítími þá nýti ég hann í að sofa, skypa heim eða læra til að koma
st á undan,“ en helstu áhugamál Sigtryggs eru íþróttir og tónlist.
Sigtryggur á sínar eftirlætis verslanir og veitingarstaði í borginni. „Við förum stundum út að borða um helgar og ég held að uppáhaldsstaðurinn okkar sé annaðhvort Fire and Ice á Harvard Square eða Uno því þar er hægt að nálgast íslenska ýsu. Ég versla nánast alla mína matvöru í Shaw's sem er matvörubúð nálægt heimavistinni minni. Fyrir föt er það bara gamla góða H&M og svo PacSun.“
Það byrjar að vera hlýtt á íslenskum mælikvarða undir lok mars og verður afar heitt yfir sumarmánuðina. Það er í raun alveg ágætt stuttbuxnaveður þangað til í október, en eftir það fer að kólna. Frá lokum desembers til loka febrúars er skítakuldi og frost.
Fyrir utan vina og fjölskyldu segist Sigtryggur helst sakna íslenskra mjólkuvara, vatnsins og góðs fisks. Hann ætlar sér þó að koma heim í sumar og vinna og slappa af. Sigtyggur segir námið í skólanum vera bæði í senn erfitt, gefandi og skemmtilegt og verður það forvitnilegt að sjá hvað þessi efnilegi piltur tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.