Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Nálægð við allt og alla er stór kostur
Laugardagur 17. september 2022 kl. 07:40

Nálægð við allt og alla er stór kostur

- segir Anna Birgitta Geirfinnsdóttir

FKA kona mánaðarins

Markmið með verkefninu „Kona mánaðarins í FKA Suðurnes“ er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna og sýna hversu megnugar og magnaðar þær eru. 

Nafn: Anna Birgitta Geirfinnsdóttir

Aldur: 52 ára.

Menntun: Viðurkenndur stjórnarmaður frá Akademias. Löggiltur endurskoðandi, Viðskiptafræðingur frá HÍ með Cand Ocen gráðu.

Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er kona mánaðarins í FKA Suðurnes. Hún er löggiltur endurskoðandi og starfaði hjá Deloitte ehf. og forvera þess í rúm 30 ár en hætti fyrir ári síðan. Var eigandi og forstöðumaður útibús Deloitte í Reykjanesbæ frá árinu 2006. „Kalla mig nú giggara og ráðgjafa ásamt því að vera stjórnar- og nefndarmaður hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum.“

Hver eru helstu verkefnin?

Helstu verkefnin mín undanfarna mánuði felast í því að vera stjórnarmaður hjá nokkrum flottum fyrirtækjum á Suðurnesjum og formaður endurskoðunarnefndar hjá  öflugum félögum og lífeyrissjóðum á Íslandi sem flokkast sem einingar tengdar almannahagsmunum og ber því að vera með slíka nefnd. Einnig er ég nefndarmaður hjá Reikningsskilaráði ríkisins og verkefnastjóri hjá Endurskoðendaráði. Ég er samhliða að sinna ýmsum ráðgjafa verkefnum.


Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt?

Í störfum mínum sem endurskoðandi fannst mér skemmtilegast að vinna með fjölbreyttum og ólíkum viðskiptavinum og aðstoða þá við að leysa ýmis verkefni og útbúa ýmsar skýrslur fyrir þá. Ég er sama sinnis í dag en nú starfa ég með fyrirtækjum í ýmsum atvinnugreinum og er að kynnast þeirra rekstri og stjórnendum þeirra og hef virkilega gaman af því.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað tók við eftir að þú seldir í Deloitte?

Þegar ég tók þessa stóru ákvörðun að selja eignarhlut minn hjá Deloitte og sigla á ný mið 51 árs gömul þá var fyrsta verkefnið að taka nokkra mánuði í frí, læra að spila golf og finna fleiri áhugamál, en vinnan og fjölskyldan voru mitt eina áhugamál síðastliðin 20 ár. Þetta fyrsta ár hefur einkennst af því að njóta, skíða, læra að spila golf, ferðast, sinna félagsstörfum og handavinnu auk þeirra verkefna sem að framan eru talin. Ég hlakka til framtíðarinnar og að takast á við ný og spennandi verkefni.

Hvað hefur þú búið lengi á Suðurnesjum?

Ég fæddist í Keflavík og hef alla tíð búið þar fyrir utan tvö seinni árin mín í háskóla, þá bjó ég í borginni. Það var ótrúlega dýrmætur tími en þá fór ég að taka þátt í félagslífinu og kynntist hóp af stelpum sem eru mér mjög dýrmætar vinkonur en við erum í saumaklúbb og köllum okkur Blúndurnar.  Ég hvet alltaf ungmenni í kringum mig að prófa að flytja í bæinn á námsárunum því að í mínu tilviki var eins og ég hefði skipt um skóla, því seinni tvö árin voru miklu skemmtilegri, meðal annars vegna þess að maður var virkari í félagslífinu. Eftir nám flutti ég aftur í Reykjanesbæ og hélt áfram að vinna hjá útibúi Deloitte í Reykjanesbæ. 
Maðurinn minn heitir Ívar Valbergsson og eigum við tvö börn, Finn Guðberg Ívarsson, 17 ára og Guðbjörgu Sofie Ívarsdóttur 14 ára.

Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum?

Mér finnst helstu kostirnir vera þægileg stærð af sveitarfélagi, nálægð við allt og alla, lítið umferð og ekki síður nálægð við höfuðborgarsvæðið.  Ég hef í gegnum tíðina verið að sækja fundi, námskeið, ráðstefnur auk ýmislegt tengt börnunum í borgina og farið mörgum sinnum í viku í bæinn og stundum 2 sinnum á dag og finnst bara ekkert mál að keyra. Hinsvegar er maður oft feginn að búa í Reykjanesbæ og vera laus dagsdaglega við traffíkina sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig líst þér á nýja félagið FKA Suðurnes?

Mér líst mjög vel á FKA Suðurnes og þær flottu konur sem stóðu að stofnun deildarinnar. Það er ótrúlega mikil gróska í atvinnulífinu á Suðurnesjum og gaman að sjá kraftinn sem býr í Suðurnesjakonum. Hlakka til komandi vetrar og frekari samskipta við FKA konur og ekki síður að fá tækifæri til að heimsækja margar þeirra og sjá hvað þær eru að gera. 

Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA?

Ég var búin að vera skráð í FKA í nokkur ár þegar ég hætti hjá Deloitte en hafði lítið sem ekkert tekið þátt í starfinu sökum anna. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun þegar ég hætti hjá þessu öfluga félagi Deloitte, að taka þátt í starfi FKA og kynnast fleiri öflugum konum, og þeirra störfum, og sé ekki eftir því.  Búið að vera ótrúlega gaman og gefandi að vera virk FKA kona.

Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?

Mér finnst FKA hafa tekið vel á móti mér og ég hef kynnst mörgum nýjum konum og einnig kynnst betur öðrum sem ég þekkti eða kannaðist við og hefur það verið mjög gefandi.
Ég tók þátt í golfferð FKA til Ítalíu í maí sl. og áttum við stórkostlega viku í  Chervo Golf Hotel & Resort en ég ásamt nokkrum öðrum konum vorum í byrjendahóp og fórum í golfskóla, en Karen Sævarsdóttir PGA golfkennari og Suðurnesjakona var kennarinn okkar. Formaður golfnefndar FKA er Helga Steinþórsdótir sem er líka Suðurnesjakona. Í hópnum voru um 50 FKA konur og þetta var stórkostleg ferð og ég á alveg örugglega eftir að taka þátt í fleiri ferðum með FKA í framtíðinni.

Heilræði / ráð til kvenna á Suðurnesjum?

Verum óhræddar að sýna hversu megnugar og magnaðar við erum og tökumst á við nýjar áskoranir með bros á vör.

Anna Birgitta á golfvellinum í sumar

Ný Stjórn kosin á aðalfundi FKA

Ný stjórn var kosin á aðalfundi hjá FKA Suðurnesjum sem var haldinn í bíósal Duus húsa 7. september sl. Guðný Birna Guðmundsdóttir var formaður fyrsta ár félagsins en lætur nú af embætti. Fida Abu Libdeh var kosinn formaður á fyrsta stjórnarfundi en með henni í nýrri stjórn eru: 

Þuríður H. Aradóttir Braun, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Snjólaug Jakobsdóttir, Gunnhildur Pétursdóttir, Eydís Mary Jónsdóttir, Sigurbjörg Gunnarsdóttir og Unnur Svava Sverrisdóttir.

„Föstudaginn 26. nóvember 2021 tóku rúmlega áttatíu konur þátt í sögulegum stofnfundi þegar deildin var stofnuð. Þann dag skrifuðu konur sig inn í söguna, konur sem vildu ræða tækifærin á Suðurnesjum s.s. orkumál, nýsköpun og tækifærin almennt en síðast en ekki síst að gefa sér dagskrárvaldið á svæðinu og samfélaginu öllu,“ segir í tilkynningu frá Félagi kvenna á Suðurnesjum.