Nágranni stöðvaði tónleika Valdimars
Hljómsveitin í Evrópureisu
Keflvíska hljómsveitin Valdimar er um þessar mundir á sínu fyrsta tónleikaferðalagi um Evrópu. Strákarnir halda tónleika víðs vegar um Þýskaland auk þess sem þeir spila í Sviss og Austurríki. Blaðamaður VF hitti hljómsveitina í Berlín á dögunum þar sem þeir léku fyrir gesti í heimahúsi. Staðurinn sem upphaflega átti að notast við var tvíbókaður og því voru góð ráð dýr. Með í förinni er hljómsveit frá Sviss sem kippti því í liðinn að leika í heimahúsi hjá kunningja hljómsveitarinnar. Því voru auglýstir tónleikar á fésbókinni og hreiðruðu tónleikaþyrstir um sig á stofugólfinu í íbúð í Neuköllnhverfi borgarinnar.
Undirritaður hefur sjaldan skemmt sér betur á tónleikum með Valdimar og hefur hann þó sótt þá nokkra. Sérstakt atvik átti sér stað undir lok tónleikanna þegar nágranni hafði fengið nóg af látunum. Hann óð inn í íbúðina og gekk beint að hljómsveitinni og skipaði þeim að hætta í miðju lagi. Strákarnir í Valdimar voru hins vegar djúpt sokknir í spilamennskuna og urðu hans ekki varir, nema Valdi söngvari sem vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga og hætti að syngja á meðan hljóðfæraleikararnir héldu ótrauðir áfram. Að lokum róaðist nágranninn og strákarnir fluttu aukalag, svona sérstaklega fyrir nágrannann pirraða.
Myndir/Eyþór Sæmundsson