Mannlíf

Nágrannar halda saman götumarkað
Á myndinni má sjá grannkonurnar Önnu Margréti Ólafsdóttur, Kristlaugu Sigurðardóttur og Dagnýju Gísladóttur með örlítið brotabrot af þeim munum sem seldir verða á markaðnum.
Föstudagur 2. september 2016 kl. 09:25

Nágrannar halda saman götumarkað

Nokkrir nágrannar í gamla bænum í Reykjanesbæ hafa tekið sig saman og halda Götumarkað á morgun, laugardag. Ein þeirra er Kristlaug Sigurðardóttir, íbúi við Norðfjörðsgötu 11. „Ég er að flytja til Reykjavíkur þannig að ég er mikið að rýma til hjá mér,“ segir hún. Á götumarkaðnum verður margt spennandi á boðstólum, svo sem antíkskápar, retro sófasett, borðspil, bækur, plötur, eldhúsáhöld, boxpúði, útileguhúsgögn, gamlir myndarammar, golfsett og píluspjöld. „Svo er ég með fullan kassa af gögnum til að nota við undirskriftasafnanir; skrifblokkir og penna, ef fólk vill ganga í hús og safna undirskriftum með eða á móti einhverju,“ segir Kristlaug en gögnin urðu afgangs við söfnun undirskrifta gegn byggingu á kísilveri Thorsil í Helguvík í fyrra.

Meðal annarra muna á markaðnum verður ritröðin Keflavík í byrjun aldarinnar, líf og saga, fyrsta, annað og þriðja bindi. „Síðast en ekki síst má nefna listaverk af allsberum Jesú að pissa eftir Reyni Katrínarson. Ég get ímyndað mér að það verði barist um það,“ segir hún.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kristlaug og nágrannar ætla að byrja að bera dótið á markaðinn út um klukkan 13:00 á morgun og hefst hann upp úr því. Hún segir um að gera að mæta, prútta og gera góð kaup. Markaðurinn verður við Norðfjörðsgötu 11 í Reykjanesbæ, í gamla Kirkjulundi.