Nærri aldargamall og keypti sér nýja fartölvu
Það er áhugavert að heyra af fólki sem er næstum 99 ára gamalt og er að læra á tölvur og notfæra sér þá tækni í daglegu lífi. Gunnar Jónsson, íbúi í þjónustuíbúð á Nesvöllum, var að endurnýja fartölvuna sína sem hann notar daglega.
„Nei, það er nú ekki langt síðan ég fór að fikta við tölvur. Björgvin tengdasonur minn keypti þessa fyrir mig í Reykjavík,“ segir Gunnar þegar hann sýnir útsendurum Víkurfrétta nýja fartölvu sem hann hefur fengið í hendurnar og notast við daglega.
„Ég er að ná í blöðin og fréttamiðla en svo er ég aðallega í tónlistinni,“segir Gunnar í samtali við blaðamann.
Gunnar segist hafa gaman af Youtube myndveitunni. „Ég er svolítið drjúgur í tónlistinni og þykir gaman af allri dansmúsík,“ segir hann og bætir við: „Svo er það bara að spila kapal. Maður getur legið alveg í honum.“
Þú ferð mikið inn á Youtube og þar er mikið af efni.
„Já, það er mikið af efni sem maður finnur þar. Það klikkar nú stundum þegar ég er að leita þar en ég byrja þá bara aftur.“
Er langt síðan þú lærðir að bjarga þér á tölvu?
„Nei. Þegar ég fékk þessa tölvu, þá kenndu dætur mínar mér að komast inn á þetta. Ég var nú svolítið lengi að átta mig á þessu. Ég þurfti að spyrja oft um sömu atriðin,“ segir Gunnar og hlær. „En svo kom þetta smátt og smátt.“
Heldur þú að það sé algengt hjá eldra fólki að það nýti sér tölvur?
„Það er örugglega misjafnt. Sumir eru alveg á kafi í þessu. Ég var að hugsa um að læra á heimabankann, en læt Lovísu dóttur mína bara um það fyrir mig.“
Þannig að þú ferð ekkert í heimabankann sjálfur til að skoða?
„Nei, ég þarf þess ekki. Dóttir mín er búin að sýna mér hvernig þetta virkar, en ég held að ég nái því ekki,“ segir Gunnar og kímir. Þá segist hann heldur ekki vera kominn að því að „gúggla“ á netinu til að leita sér upplýsinga. Hann láti frekar Youtube leiða sig áfram í flakki um heima danstónlistar og fleira í þeim dúr.
Til í að læra á Google
Blaðamaður býðst til að sýna Gunnari hvernig á að nota leitarvélina á netinu. „Þú mátt sýna mér það en þarft jafnvel að gera það oftar en einu sinni svo ég nái því.“
Gunnar er jafnframt kominn með snjallsíma en segist ekki vera með nein öpp eða gögn þar. Hann sé bara til að hringja og taka á móti símtölum.
Gunnar hefur næstum lifað heila öld og tímarnir eru mikið breyttir frá því hann var ungur maður. Þá voru ekki tölvur.
„Þá var bara penni og blað og allt skrifað,“ segir hann.
Virkur þátttakandi í heilsueflingu
Heilsuefling Janusar í Reykjanesbæ berst í tal en Gunnar hefur verið þátttakandi í því verkefni frá upphafi og er enn að.
„Ég hef verið að mæta tvisvar í viku eins og þetta var en það hefur alveg dottið út eitt og eitt skipti og þá sérstaklega þegar það er leiðinda veður eins og verið hefur undanfarið.“
Ertu ennþá að keyra?
„Já, já, ég er með bílpróf.“
Eru læknarnir ekkert að skoða sjónina svo þú haldir prófinu?
Jú. Það var í fyrra og þá var ég búinn að fara yfir alla stafina og læknirinn bara glápir á mig. Ég varð að gjöra svo vel að lesa aftur. Hann trúði mér ekki og ég spurði hann hvers vegna hann horfði svona á mig en hann svaraði því ekki,“ segir Gunnar og hlær af atvikinu. Gunnar fékk vottorðið hjá lækninum og er ennþá með gild ökuréttindi. Það er stutt síðan Gunnar fór til augnlæknis þar sem augnbotnarnir voru skoðaðir og sagðir vera eins og hjá ungmenni.
Hefur það haft góð áhrif á þig að stunda þessa heilsurækt?
„Já. Ég held að ég hafi byrjað alltof seint á þessu. Þetta er helvíti gott svona passlega mikið. Ef maður reynir of mikið á sig þá verður maður þreyttur. Ef þetta er allt í hófi þá er þetta bara mjög gott og það er gott að halda því bara svoleiðis.“
Heldur áfram á meðan heilsan leyfir
Gunnar ætlar að halda áfram í ræktinni eins og hann getur og meðan heilsan leyfir. Það gangi vel og ef eitthvað klikki, þá bara klikki það, segir hann. Gunnar er líka duglegur að stunda ræktina heimavið. Hann er með þrekhjól heima hjá sér sem hann notar daglega. Þá er einnig oft sett dansmúsík á fóninn og tekin spor í stofunni. Það gerði Gunnar einmitt fyrir blaðamenn Víkurfrétta og myndskeið af því má sjá í rafrænni útgáfu blaðsins.
Þú ert að dansa líka, er það ekki?
„Já, já. Við ætluðum að fara að byrja starfið núna eftir Covid-ið en við mættum ekki nema tvö. Það þarf eitthvað að láta vita betur af þessu. Ég hitti einmitt eina stúlkuna í göngunni í morgun og hún vissi ekkert af því að dansinn væri byrjaður, þannig að það þarf að láta vita betur af honum.“
Gunnar er í gönguhópi sem mætir reglulega í Reykjaneshöllina þar sem gengið er á morgnana og gerðar viðeigandi teygjur. „Við erum eitthvað um tuttugu manns sem erum að mæta,“ segir Gunnar.
Varð fyrir skotárás frá Bretum í stríðinu
Gunnar er titlaður skipstjóri í símaskránni en hann byrjaði til sjós þegar hann var fimmtán ára gamall. Hann réði sig til Seyðisfjarðar hjá Árna Vilhjálmssyni. Róið var á sex bátum með línu yfir sumarmánuðina. Gunnar var þrjú sumur fyrir austan eða fram í seinna stríð. Síðasta sumarið hans í róðrum fyrir austan var þegar stríðið byrjar. Róið var fram í september en þá var farið að dimma.
„Einu sinni þegar við vorum að fara á sjó var farið að skyggja. Bátarnir voru ekki raflýstir, heldur voru dregnar upp olíuluktir. Það gekk illa að koma luktunum upp. Svo gerðist það að Bretarnir, sem höfðu komið sér fyrir í firðinum, skutu á okkur á landleiðinni. Bretarnir voru með byrgi við Sörlastaði og skutu þaðan. Kúlan hafnaði í sjónum um átta metra frá okkur. Eftir þetta hættu allir að róa,“ segir Gunnar. Engar skýringar fengust á þessari árás Bretanna. Málið fór til sýslumanns en engin svör fengust.
Eftir þetta atvik ákvað Gunnar að nóg væri komið fyrir austan og kom suður til Keflavíkur og beint á reknet. „Það var eina útgerðin sem var alveg fram að jólum. Svo var farið að róa á línu í desember og fá smá jólapening og gaf bara vel.“
Bátarnir á þessum tíma voru mest tuttugu tonna bátar en voru frá átján og upp í tuttugu og fjögur tonn.
Kaninn kýldi Alla kóng
Gunnar segir stríðsárin hafa verið að mestu án vandræða hér suður með sjó. Hann muni eftir einu atviki sem hafi verið hættulegt. Þá hafi herjeppi komið niður Aðalgötuna í Keflavík og beygt inn á Túngötuna. Það eru nokkrir strákar sem standa við hornið á húsinu hjá Gunnari Árnasyni, beint á móti Ástusjoppu.
„Alli kóngur er í hópnum, rallandi fullur, og veifar til jeppans þegar hann kemur inn götuna og fær þá til að stoppa. Kaninn stoppar og út stígur hár og myndarlegur maður. Alli babblar eitthvað við hann og vill bara fara að slást við þá. Kaninn gaf Alla á kjaftinn og þá vildi hann að hópurinn færi að slást en fékk engin viðbrögð. Alli fékk bar einn á lúðurinn og þá var þetta bara búið,“ segir Gunnar.
Unir hag sínum vel á Nesvöllum
Gunnar er nýlega fluttur að Nesvöllum í Reykjanesbæ þar sem eru þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara. Þar unir hann hag sínum vel og nýtir m.a. þá þjónustu að fara í mat í húsinu og sleppur þá við að elda sjálfur. Hann segist kunna ágætlega við það.
Hann segist ekki finna sig í félagslífinu á Nesvöllum. Þó svo Gunnar sé duglegur að leggja kapal í tölvunni, þá fyndist honum leiðinlegt að spila á spil. M.a. sé boðið upp á Bridds en hann taki ekki þátt í því. „Þar þurfi að vera minnugur og minnið er ekkert alltof gott, segir Gunnar og brosir.
Fátækt í heimskreppunni
Gunnar segir að það sé mun auðveldara að vera ungur maður í dag með allri þessari tækni, heldur en þegar hann var að alast upp.
„Það var fátæklegt hérna í kringum 1930 í heimskreppunni. Fólk var bara reglulega fátækt. Það stóð uppi með útgerðarmönnunum sem áttu allt en svo kemur verkalýðsfélagið í spilið. Þá var aldeilis slagurinn um það að fá að vera til.“
Í rafrænni útgáfu Víkurfrétta má horfa á viðtal við Gunnar sem var í Suðurnesjamagasíni í síðustu viku. Þar má m.a. sjá kappann taka nokkur létt dansspor í íbúð sinni á Nesvöllum.