Mystery Boy í Þjóðleikhúsið
- Söngleikurinn valinn áhugaleiksýning ársins 2017-2018
Söngleikurinn Mystery Boy, eftir Smára Guðmundsson og Leikfélag Keflavíkur hefur verið að sýna undanfarin misseri, hefur verið valin athyglisverðasta áhugaleiksýnig leikársins 2017-2018. Þetta kemur fram á Facebook- síðu Leikfélags Keflavíkur en síðustu sýningar Mystery Boy fóru fram í Frumleikhúsinu um helgina.
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og fimmta sinn. Að þessu sinni sóttu alls fjórtán leikfélög um að koma til greina við valið með sextán sýningar. Formaður dómnefndar var Björn Ingi Hilmarsson leikari og leikstjóri, en með honum í dómnefnd sátu þrír leikarar Þjóðleikhússins, þau Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.
Umsögn dómnefndar um sýninguna: „Sýning Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson, í leikstjórn Jóels Sæmundssonar, er afar metnaðarfullur, nýr íslenskur söngleikur þar sem fjallað er á óvenjulegan hátt um mikilvæg málefni. Verkið er byggt á reynslu höfundar af því að fara í áfengismeðferð, en útfærslan er afar frumleg og djörf. Fantasíukennd nálgun höfundar við efnið er til þess fallin að gera efnið aðgengilegt og skemmtilegt fyrir nútímaáhorfendur. Um leið er fjallað um sígild viðfangsefni eins og ástina, frelsisþrána, óttann, átök um völd, baráttu góðs og ills, mannleg samskipti og það að upplifa sig á einhvern hátt utangarðs. Leikstjórnin einkennist af alúð og virðingu fyrir viðfangsefninu. Umgjörðin er einföld en notuð á hugvitssamlegan hátt og fallega lýst. Tónlistin er skemmtileg og vel flutt af hljómsveit og söngvurum, sem einnig standa sig vel í leik. Leikfélag Keflavíkur fær sérstakt hrós fyrir að ráðast af miklum metnaði í uppsetningu á nýju verki, með nýrri tónlist, þar sem þátttakendur leggja líf og sál í uppsetninguna“.
Víkurfréttir óska aðstandenum Mystery Boy innilega til hamingju.