MYSTERY BOY FÖSTUDAGINN ÞRETTÁNDA

- Leikfélag Keflavíkur frumsýnir

Mystery Boy er kómísk ástarsaga um ungt fólk sem í leit sinni að sannleikanum og ástinni lendir í furðulegu ferðalagi og óvæntum ævintýrum. Það er Leikfélag Keflavíkur sem setur söngleikinn á svið en frumsýning er föstudagskvöldið 13. apríl. Höfundur er listamaðurinn Gudmundson sem er fóstraður af Smára Guðmundssyni tónlistarmanni. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson. Tónlistin er samin af Gudmundson og Tósa Ljósár. Tónlistarráðgjafi er Stefán Örn Gunnlaugsson.

„Þetta er sett upp sem kómísk ástarsaga um ungt fólk sem í leit sinni af sannleikanum og ástinni lendir í furðulegu ferðalagi og óvæntum ævintýrum. En þrátt fyrir að viðfangsefnið sé alvarlegt er mikilvægt að koma auga á spaugilegu hliðarnar og hafa gaman,“ sagði Smári Guðmundsson í viðtali við Víkurfréttir fyrir um mánuði síðan þegar ákveðið var að ráðast í verkefnið.
Smári hefur lært upptökustjórn en hafði ekki mikla reynslu af söngleikjum þegar hugmyndin kviknaði en áhuginn jókst eftir því verkinu miðaði áfram.

„Ég fór af stað í þetta verkefni með litla sem enga vitneskju í farteskinu nema þá reynslu sem ég hef úr tónlistinni. Því lengra sem ég fór inn í verkið fór áhuginn minn fyrir söngleikjum og handritagerð að aukast. Ég fór að hafa þráhyggju fyrir þeim sem ég tel vera af hinu góða því ef á að gera hluti vel þarf að fá kafa djúpt í viðfangsefnið. Ég sökkti mér í allar bækur um söngleiki og handritagerð sem ég komst yfir og sótti einnig námskeið,“ sagði Smári.

Smári fékk með sér stórskotalið af geggjuðu fólki í söngleikjagerðina eins og hann segir sjálfur. Stefán Örn Gunnlaugsson (Íkorni) er sérstakur tónlistarráðgjafi Mystery Boy en hann hefur m.a. sett upp söngleik á Broadway. „Með honum kemur inn gífurleg reynsla og erum við afar þakklát að fá hann inn í verkefnið. Auk Stefáns nýt ég krafta Ástþórs Sindra Baldurssonar við að setja upp tónlistina með mér. Fleiri hafa komið nálægt tónlistinni og má þar nefna Björgvin Ívar bróðir Ástþórs og stórfrænda þeirra Gunnar Skjöld. Fríða systir er svo að aðstoða við söngtextana“.

Fríða Dís gerir reyndar aðeins meira en að aðstoða við söngtextana því hún fer með eitt af stóru hlutverkunum í söngleiknum. Nánar er fjallað um Mystery Boy í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á fimmtudagskvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og á vf.is.