Mystery boy býr í okkur öllum

- Kraftmikil frumsýning LK

Ástin og eilífðin voru á sviðinu í Frumleikhúsinu sl. föstudagskvöld þegar Leikfélag Keflavíkur frumsýndi söngleikinn Mystery Boy eftir heimamanninn Gudmundson, betur þekktan sem tónlistarmanninn Smára Guðmundsson.

Þetta er metnaðarfullt framtak af hálfu leikfélagsins sem hefur tekið virkan þátt í sköpunarferlinu frá upphafi en það er óhætt að segja að starfsemi leikfélagsins sé öflug um þessar mundir. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að sjá frumflutning á Suðurnesjaverki og vona ég að framhald verði þar á.

Mystery boy gerist í ónefndum bæ katta þar sem eina leiðin út og inn er með kattahraðlestinni. Þangað kemur óvænt Crazy sem leikin er af Fríðu Dís Guðmundsdóttur og kynnist hún persónum þessa undarlega staðar og heyrir af Mystery boy sem hefur sérstaka krafta. Upphefjast þá átök góðs og ills.

Á sviðinu er hljómsveit og þar má sjá höfundinn sem að sjálfsögðu leikur með. Bjóst maður hálfgert við miklum látum en tónlistinni er komið til skila á hófstilltan hátt og það sama má segja um sönginn. Þar er engin áhersla lögð á stæla heldur er einlægnin og einfaldleikinn látinn ráða. Ágætis tilbreyting það.
Það vekur athygli að íbúar þessa bæjar eru allir í sloppum og tengir maður það strax við reynslu höfundar sem hefur sagt verkið fjalla um edrúmennsku hans og vera hans leið til að virkja sköpunarkraftinn sem henni fylgdi.

Aðalpersónan Smurf er leikin af Arnóri Sindra Sölvasyni, sem þarf í raun að bregða sér í tvö hlutverk í sama manninum. Besti vinur hans Tómas tíkall veitir honum góð ráð en hann leikur Guðlaugur Ómar Guðmundsson sem hefur átt góðan leik hjá félaginu síðustu misseri og tókst að gefa þessu aldna fressi dýpt og trega. Jón Bjarni Ísaksson leikur Olla, eina hundinn í bænum og á stórkostlega kómíska spretti. Sibba er leikin af Rítu Kristínu Haraldsdóttur Prigge af miklu öryggi og skörungsskap og síðastur en ekki sístur er

Arnar Ingi Tryggvason í hlutverki hins illa Lúlla Létta sem stal senunni í hvert sinn.
Þá er gengið í aukahlutverki sem kemur til sögunnar í flestum senum, æði skuggalegt.
Leikgerðin er útsjónarsöm og skemmtileg, það er mikill húmor á sviðinu og það er greinilegt að leikhópurinn er þéttur. Kemur einmitt fram í leikskrá að góð orka hafi myndast á æfingarferlinu eða eins og höfundurinn lýsir því: Þessi orka og kraftur var eins og vöðvi sem stækkaði og styrktist í gegnum allt ferlið og stendur nú stöðugur og olíuborinn og er tilbúinn að láta sýna sig.

Þessi sýning gerir kröfur á sýningargesti sem er bara jákvætt og er tónlist Guðmundssonar stjarna sýningarinnar. Virkilega falleg og tær í einfaldleik sínum.
Lof fá að venju sviðsmyndahönnun, ljósahönnun sem og leikstjórinn, Jóel Ingi Sæmundsson sem hefur náð að beisla þennan sköpunarkraft og sýna okkur eitthvað nýtt - í Frumleikhúsinu.

Mystery boy býr í okkur öllum og er einstakur eins og þú.

Ég óska höfundi til hamingju með frumraun sína á sviði og skora á ykkur að mæta og njóta.

Dagný Maggýjar

Hilmar Baragi Bárðarsson tók meðfylgjandi myndir á frumsýningu Mystery Boy