Myndir: Vaskur hópur gekk á Stóra Hrút
Það var vaskur hópur sem gekk á Stóra Hrút í blíðskaparveðri miðvikudaginn 27. júlí með Reykjanesgönguferðum. Gengið var meðfram fjallinu Slögu, stoppað var við Drykkjastein og sagðar sögur um hann. Gengið var upp á Langahrygg og sagt frá flugslysum sem urðu í Fagradalsfjallinu, haldið var upp Stóra Hrút (355m) útsýnið á toppi hans var stórkostlegt og sást til allra átta, Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull og allt fallega Reykjanesið, nesti kvöldsins var borðað á toppnum í brakandi blíðu.
Haldið var niður af fjallinu og gengið með Borgarfelli um Nátthaga þar sem rútan beið hópsins. Bakaleiðin var ekin útá Reykjanes þar sem Grindavíkurafleggjari var lokaður, þar með fékk hópurinn að njóta sólarlagsins í bakaleiðinni. Gangan var 10 km löng og tók rúmar fjórar klukkustundir.