Myndir úr göngu Reykjanesgönguferða á Geitfell
Vaskur hópur gönguólks tók þátt í gönguferð Reykjanesgönguferða í vikunni á Geitafell þrátt fyrir slæma veðurspá. Gangan hófst með því að gengið var upp á Stóru-Eldborg, sem er friðlýst náttúruvætti. Þar var sagt frá upptökum hennar og sögu. Þaðan var gengið niður í átt að Geitahlíð sem gnæfir yfir Stóru-Eldborg. Farið var upp fjallið í Hvítskeggshvammi sem er þægileg uppgönguleið, svolítið brött en gróin. Bláberin freistuðu gönguhópsins en þar sem rigningin var að aukast, þá fóru færri ber í munninn en ella. Sögð var gömul þjóðsaga um Herdísi (frá Herdísarvík) og Krýs (frá Krýsuvík) og erjum þeirra.
Þegar upp á topp Geitahlíðar var komið fór heldur betur að blása, svartaþoka og ekkert lát á rigningunni. En þar sem hópurinn var einstakalega krafmikill var haldið áfram upp á hæsta punkt sem nefnist Æsubúðir og er 385 metra yfir sjávarmáli. Sagt var frá þeim en ekki var staldrað lengi við, þar sem ekkert útsýni var og varla stætt. Haldið var niður sömu leið og komið var upp með góðri aðstoð GPS tækisins. Rútan beið svo heit og fín blauta en hressa göngugarpanna. Gengnir voru 4.12 kílómetrar á einni klukkustund og 48 mínútum.