Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Myndi hoppa hæð mína, halda stórt partý og knúsa alla og kyssa
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 24. apríl 2021 kl. 07:14

Myndi hoppa hæð mína, halda stórt partý og knúsa alla og kyssa

Elín Rós Bjarnadóttir er þakklát fyrir viðtökur á Orkustöðinni. Hún ætlar í fjallgöngur og kannski til Spánar í sumar.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Elínu Rós Bjarnadóttur í vetur en hún opnaði með systur sinni og öðrum Orkustöðina í Reykjanesbæ og fékk góðar móttökur. Hún fermdi þriðja barnið sitt og gat haldið góða fermingarveislu – en hún er orðin hundleið á Covid.

– Hvað er efst í huga eftir veturinn?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þakklæti. Veturinn hefur farið í það að hefja rekstur Orkustöðvarinnar og það hefur gengið mjög vel miðað við aðstæður í samfélaginu núna. Orkustöðin er greinilega þörf viðbót í okkar frábæra bæjarfélag miðað við hversu góðar viðtökur við höfum fengið. Er þakklát fyrir bæjarfélagið mitt og fyrir fólkið sem í því býr. Maður finnur stuðning og hvatningu úr öllum áttum.“

– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?

„Þriðja barnið mitt var fermt og við vorum svo heppin að geta haldið veislu fyrir hann og gert þetta á hefðbundinn hátt. Það máttu 50 manns koma saman þegar hann fermdist og það var yndislegt að hitta allt fólkið sitt í einu. Dagurinn var afskaplega fallegur og drengurinn alsæll. Það er ekkert sem gleður mann meira en þegar börnin manns eru glöð og sæl.“

– Hversu leið ertu orðin á Covid?

„Svo leið að ég nenni ekki að hlusta eða tala um neitt sem tengist því. Covid má fara þangað sem sólin ekki skín. “

– Ertu farin að gera einhver plön fyrir sumarið, ferðalög t.d. Ætlarðu til útlanda?

„Ég er yfirleitt með alltof mikið á prjónunum en ég ætla alla vega að vera dugleg í fjallgöngum í sumar  og svo ætlum við fjölskyldan til Spánar ef það verður hægt. Veit samt ekki alveg hvort ég nenni ef ég þarf að fara í sóttkví þegar ég kem heim. Maður verður bara svolítið að sjá til. Annars er Ísland best í heimi og oft skemmtilegustu og eftirminnilegustu ferðalögin í bakgarðinum.“

– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid- frír í næstu viku?

„Ég myndi hoppa hæð mína, halda stórt partý og knúsa alla og kyssa.“

– Uppáhaldsmatur á sumrin?

„Ég er rosaleg alæta þegar það kemur að mat. Mér finnst svakalega gott að borða og á mjög erfitt með að nefna einhvern uppáhaldsmat – en það sem er heimatilbúið finnst mér oft best. Sérstaklega þegar það kemur að kökum og svoleiðis fíneríi.“

– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?

„Vatn með klökum verður alltaf mitt uppáhald.“

– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu fyrir utan gosslóðir?

„Ég myndi bjóða honum í Yoga og tónheilun í Orkustöðinni og í göngutúr meðfram sjávarmálinu í Reykjanesbæ.“

– Hver var síðasta bók sem þú last?

„Ég les ekki bækur til gamans og hef aldrei gert. Er ein af þeim sem uni mér ekki við lestur. Ef ég les eitthvað, þá er það námstengt en hef lesið mikið af námsefni í gegnum lífið. Síðasta bók sem ég las var Hatha Yoga Pradipika. Hef lesið hana þrisvar sinnum og læri alltaf eitthvað nýtt.“

– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?

„Elska notalega og rólega tónlist og ekki hægt að velja eitt lag – en skal nefna nokkur sem kveikja á einhverri innri vellíðan. Slow með Henry Green, Hallelujah með Jeff Buckley og Arrival eftir Japanese Wallpaper.“

– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?

„Ég vil byrja á því að hrósa því sem vel er gert og er mjög ánægð með hvað sundlaugin er orðin flott og maður finnur hvað það fer betur um alla. Ég væri samt alveg til í einhver skemmtileg útisvæði sem tengjast sjónum. Hafið hefur svo gríðarlegt aðdráttarafl og gefur svo mikla orku. Það væri hægt að skapa svo skemmtilega menningu í kringum hafið sem myndi bæði laða að ferðamenn og íbúa. Ég er með svo margar hugmyndir hvað það varðar sjálf og aldrei að vita nema Orkustöðin geri eitthvað sniðugt tengt hafinu þar sem hún er staðsett á besta stað. Það væri t.d. hægt að setja af stað eitthvað samfélagslegt verkefni þar sem þetta verður sérstaklega tekið fyrir og bjóða fyrirtækjum að leggja sitt af mörkum.“