Myndband: Dusta rykið af rokkinu
Fornfrægar hljómsveitir af Suðurnsjum koma saman á Paddy’s
Það stendur mikið til hjá rokkurum en blása á til tónleika á Paddy’s þar sem líklega síðasta kynslóð bílskúrsbanda af Suðurnesjum mun rifja upp gamla takta undir heitinu Rykið af rokkinu. Þarna koma saman hljómsveitir sem starfræktar voru í kringum síðustu aldarmót. Þá var mikil gróska í rokktónlist en komu fram á sjónarsviðið margar sveitir og tónlistarmenn sem hafa gert það gott í íslenskri tónlist síðan. Flestir spiluðu þó sér til skemmtunar og „meikuðu“ það aldrei. Senan hefur aðeins breyst og færst úr bílskúrnum að mestu leyti en með tónleikunum er vonast til þess að fanga gamla stemningu.
Við hittum fyrir strákana í Tommygun Preachers á æfingu í sögufrægum bílskúr í heimahúsi á Vallargötu, stúdíó Lubbi er rýmið oftast kallað, en þar hafa á síðustu tæplega 30 árum komið saman tugir bílskúrsbanda og verið teknar upp plötur. Bassaleikarinn Ingi Þór Ingibergsson er húsráðandi en hann keypti húsið af foreldrum sínum. „Við fengum að hanga hérna og gera músík, þetta var mjög frjálst,“ rifjar Ingi upp. „Hér hefur alltaf eitthvað verið að gerast. Alltaf einhver bönd að æfa. Pabbi er ennþá að æfa hérna með bandinu sínu og hann er 66 ára,“ en þar er Ingi að tala um hljómsveitina Hippar í handbremsu þar sem Ingibergur Kristinsson pabbi hans spilar á bassa.
Mikil gredda í gangi
„Senan um aldarmótin var mjög blómleg og mikil gredda í gangi. Það voru allir að gera eitthvað. Mikið var um tónleika og menn voru bara að fá borgað í bjór. Eins og það er reyndar á föstudaginn,“ segir Ingi og strákarnir skella upp úr.
Magni Freyr söngvari og Óli Ingólfs trommari byrjuðu ferilinn saman í hljómsveitinni Bóner í grunnskóla. Nafnið vekur umsvifalaust mikla kátínu í skúrnum þegar Magni rifjar upp fyrstu skrefin í rokkinu. Þaðan fóru þeir báðir í hljómsveitina Skvaldur sem treður upp á morgun. „Rokkið kemur í bylgjum hérna. Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef verið í mörgum böndum. Sum lifðu bara eina æfingu,“ segir Magni. Hann sækir enn í harðara rokkið og hefur þá verið að leita í höfuðborgina. „Mér finnst ekki mikið ungt blóð að koma inn. Mér finnst rokkið vera dálítið á undanhaldi á svæðinu. Ég verð ekki mikið var við tónleika hérna. Það hefur loðað við Suðurnesin að fólk tými ekki að borga sig inn á tónleika. Því þarf að leita á höfuðborgina þar sem senan er stærri.“ Óli trommari er starfandi í fjórum böndum um þessar mundir en hann hefur verið í fjöldanum öllum að hljómsveitum á Suðurnesjum síðustu tvo áratugina auk þess að semja raftónlist sjálfur.
Vonast til að kveikja neista
„Við erum að reyna að vekja aftur upp þessa stemningu sem var hérna um aldamótin. Þar sem bönd voru í öðrum hverjum bílskúr. Vonandi náum við að kveikja einhvern neista í yngri kynslóðinni. Það var góð bylgja sem reið hérna yfir,“ segir Smári Guðmundsson gítarleikari sem kemur að tveimur atriðum á Paddy’s. „Ég er umboðsmaðurinn hans Mystery boy. Hann mun koma fram ef ég næ í hann, það hefur ekki ennþá tekist. Hann er reyndar að spila mikið erlendis, Saudi Arabíu og Katar. Þar er hans heimastöð.“
Drengirnir eiga von á því að fastagestir á tónleikunum hér áður fyrr láti sjá sig á föstudag en vonast að sjálfsögðu eftir ferskum andlitum. „Það er draumurinn er að halda fleiri svona kvöld. Þessi hugmynd fæddist fyrir áramót um að smala saman þessum gömlu böndum sem voru starfandi á þessum árum og jafnvel fyrr. Við höfðum samband við fullt af fólki en það voru ekki allir tilbúnir að vera með eða höfðu ekki tök á því. Margir voru til en komust ekki núna. Þannig að það verður líklega annað svona kvöld og vonandi fleiri,“ segir Ingi Þór. Hann segir mikið púsluspil að fá svona marga til þess að taka þátt og allt þurfi að smella. Flestir sem voru í hljómsveit á þessum tíma þekkjast vel enda eru margir sem léku með fleiri en einni hljómsveit. Því svfífur væntanlega ættarmótastemning yfir vötnum á tónleikunum.
Börn og peningaleysi settu strik í reikninginn
Mörg böndin þurftu að hætta samstarfi vegna þess að menn fóru að stofna fjölskyldu og mennta sig. „Þegar maður er í þessu og fær ekkert borgað þá verður maður að gefa þetta upp á bátinn þegar maður er með svona mikla ábyrgð í lífinu,“ segir Ingi. Strákarnir eru því spenntir fyrir tónleikunum og hlakkar til að fá útrás. „Okkur öllum finnst þetta geðveikt. Við finnum þessa orku sem við erum að skapa. Þetta er svo mikil útrás sem maður fær við að spila svona hratt rokk. Það er líka svo gaman að finna hvað við grúvum ennþá vel og erum þéttir,“ bætir Ingi við og vonast til þess að hljómsveitin muni halda áfram að hittast. Strákarnir virðast vera til í það.
Hljómsveitirnar sem ætla að troða upp á þessu fyrsta kvöldi eru: Skvaldur, Ritz, Mystery Boy og Tommygun Preachers. Tímabilið sem um ræðir er kannski um 15 ára skeið, til eða frá. Þarna urðu til mörg bönd sem lifðu mislengi. Má þar nefna: Þusl, Deep Jimi, Kolrassa, Danmodan, Moðfisk, Fálkar, Texas jesú, Koja, Tabúla rasa, Tokyo megaplex, Drákon, Tópaz, 2 leikmenn, Gizmo og Strengir ásamt fjölmörgum öðrum.
Smári gítarleikari og Óli trommari í stúdíó Lubbi peace. Þeir hafa komið að fjölmörgum hljómsveitum á Suðurnesjum.