Myndatakan nokkrum dögum áður
Fermingardagurinn er stór dagur í lífi fermingarbarnsins og fjölskyldunnar og flestum þykir sjálfsagt að festa þessi merku tímamót á filmu. Sólveig í Nýmynd sagði að mikið væri búið að bóka en megin breytingin væri sú að nú væri algengara að fólk kæmi nokkrum dögum fyrir fermingu því þá væru myndirnar tilbúnar á fermingardaginn. Tískan í fermingarmyndatökum hefur lítið breyst, að sögn Sólveigar. „Það er alltaf vinsælt að láta taka mynd í hvíta kyrtlinum með sálmabókina en svo reyni ég líka að taka frjálslegri myndir af krökkunum í fermingarfötunum. Svart hvítar andlitsmyndir eru alltaf sígildar því þær eldast vel“, segir Sólveig.