Myndasafn og myndskeið: Kútmagi og nýmóðins matur
— í fjáröflunarveislu Lions-manna í Grindavík
Hið geysivinsæla kútmagakvöld Lions í Grindavík, var haldið með pompi og prakt í íþróttahúsi Grindavíkur á föstudaginn. Skemmst frá því að segja að umrætt kvöld var síðasta skemmtunin sem haldin var í Grindavík áður en COVID-veiran tók líf allra heimsbúa í gíslingu í ársbyrjun 2020. Mikil eftirvænting var í loftinu og minnti stemmningin kannski á þegar beljunum er hleypt út á vorin.
Húsið opnaði með sýningu ýmissa fyrirtækja sem tengjast sjávarútveginum á einhvern máta og gátu gestir gætt sér á léttum guðaveigum í leiðinni. Borðhald hófst eftir að röggsamur veislustjórinn, Gísli Einarsson, hafði messað yfir mannskapnum og var góður rómur gerður af matnum sem Bíbbinn eini sanni, Bjarni Ólason, hafði yfirumsjón með en líklega hefur Bjarni alltaf tekið þátt í þessu kútmagakvöldi síðan það hófst í kringum 1980!
Allur matur á kútmagakvöldi er fiskmeti og er sjálfur kútmaginn gerður úr þorski en hann samanstendur af maga þorsksins, sem er skafinn að innan og utan, og í hann sett þorsklifur og rúgmjöl. Það er grunnuppskriftin en svo er hægt að fara ýmsar krókaleiðir og t.d. gera Lions-menn í Grindavík sína kútmaga en þá er hrognum bætt í kokteilinn. Kútmaginn er venjulega látinn standa í pækli áður en hann er soðinn en eins er hægt að salta áður.
Sagan segir að það skilji á milli manna og músa eftir því hvort kútmaginn er settur á diskinn eða ekki en mýsnar geta annars gætt sér á fiskigratíni eða öðrum nýmóðins mat. Hugsanlega þyrfti að bjóða upp á fiskiPIZZUR svo að sumir myndu eitthvað borða!
Eftir matinn tóku skemmtiatriði völdin og voru hláturtaugarnar rækilega kitlaðar af Ara Eldjárni og Halla Melló og ein af stjörnum Verbúðarinnar, Selma Björns, lokaði svo kvöldinu með söng og dansi.
Í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta í þessari viku er kútmagakvöldinu gerð skil með viðtölum við valinkunna Grindvíkinga og stemmningunni gerð skil í myndum.