Myndasafn: Náttúruperlur á Reykjanesi – Krýsuvík.
Sveifluháls er röð af móbergstindum og hnúkum sem liggja meðfram Kleifarvatni að vestanverðu og fellur með bröttum hömrum niður að vatninu. Krýsuvík er vinsælt útivistarsvæði enda í næstu nálægð við mesta þéttbýlissvæði landsins. Gaman er að ganga á Sveifluhálsinn sem býður upp á ægifagurt útsýni yfir svæðið, Kleifarvatn, Austurengi, inn á Brennisteinsfjöll, niður Krýsuvíkurhraunið og langt á haf út.
Vilji fólk styttri göngu en gott útsýni er hægt að fara upp Ketilsstíginn sem liggur frá Seltúni og ganga upp á hálsinn að aftanverðu (vestanverðu). Þá er komið ofan við litskrúðugt hverasvæðið í Seltúni.
Þá er einnig vinsælt að ganga eftir hálsinum endilöngum frá Vatnsskarði. Vegalengdin er 12-14 km og göngutími 5-6 klst. Á göngunni er hægt að njóta útsýnisins yfir Kleifarvatn og Krýsuvík en aðallega er hálsinn sjálfur áhugaverður enda úr veðursorfnu móbergi sem myndað er í alls kyns form. Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkar.
Þess má geta að að sunnudagurinn 22. júlí býður starfsfólk Reykjanesfólkvangs upp á göngu um Sveifluháls. Lagt verður upp frá Vatnsskarðinu kl 10:00 og gengið eftir hálsinum endilöngum.
Í frummatsskýrslu Norðuráls vegna álvers í Helguvík kemur fram að gert er ráð fyrir að virkja m.a. háhitasvæðin Seltún og Austurengjar. Landsnet gerir ráð fyrir að leggja raflínurnar yfir Sveifluhálsinn.
Í myndasafninu hér á vefnum er myndasyrpa Ellerts Grétarssonar af umræddu svæði.
Ljósm: elg