Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Myndar manneskjur eins og þær eru
Ljósmyndarinn Adam Dereszkiewicz hefur gefið út tvær ljósmyndabækur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 14. september 2024 kl. 06:08

Myndar manneskjur eins og þær eru

Ljósmyndarinn Adam Dereszkiewicz setti upp áhugaverða ljósmyndasýningu á Ljósanótt þar sem afgreiðslu­fólk við Hafnargötu í Reykjanesbæ voru viðfangsefni sýningarinnar. Adam hefur langa reynslu af ljósmyndun, hann hefur haldið fjölmargar sýningar og gefið út tvær ljósmyndabækur í Póllandi. Menningarsjóður Reykjanesbæjar styrkti verkefnið.

„Það má segja að allt hafi snúist um ljósmyndun hjá mér þar til ég flutti til Íslands. Ég var formaður Ljósmyndasamfélags Gdansk (Gdańskie Towarzystwo Fotograficzne) í um tíu ár og þar stýrði ég ljósmyndasamkeppnum, setti upp sýningar og stóð fyrir vinnustofum,“ segir Adam.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Covid-faraldurinn og ákvörðunin að hingað hafði þau áhrif að verkefnastaðan datt svolítið niður hjá mér um tíma – en áhuginn var alltaf til staðar. Fyrstu tvö árin var ég aðallega að fást við cyanotype og landslagsmyndir en það er ekki mitt sérsvið. Ég vil mynda fólk.“

Adam segir að frá því að faraldrinum lauk hafi ljósmyndaverkefnunum fjölgað jafnt og þétt. „Jú, ég tek færri myndir þessa stundina en það er líka vegna þess að ég skildi fyrirsæturnar mínar eftir í Póllandi og er að leita að nýjum andlitum.“

Skilur mest eftir að fá tækifæri til að kynnast fólki

Adam hefur fengið úthlutað úr Menningarsjóði Reykjanesbæjar tvö undanfarin ár. „Í fyrra vann ég ljósmyndasýningu sem kallaðist Single Piece of Robe og var markmið hennar að valdefla konur og láta þeim líða vel með sjálfar sig. Ég setti upp samskonar sýningu fyrir um tíu árum en þá myndaði ég konur og sýndi þær eins og þær eru, engin myndvinnsla og ekkert fótósjoppað. Þær sýndu stoltar útlit sitt og líkama, allt það sem gerði þær einstakar.

Með þeirri sýningu var ég að hvetja konur til að sættast við sjálfar sig sem mér finnst vera mikilvægt á þessum tímum útlitsdýrkunar þar sem sjálfsgagnrýni á eigið útlit er orðið að vandamáli. Konur eru sérstaklega móttækilegar fyrir þeim ósanngjörnu viðmiðum sem eru sett í dag.

Það var svolítið svekkjandi að einungis ein íslensk kona var tilbúin í myndatöku fyrir þá sýningu en þegar á hólminn var komið mætti hún ekki.“

Sýningin var sett upp í Fischershúsi í fyrra og Adam segir að hann hafi fengið mjög jákvæð viðbrögð við myndunum: „Þetta er alvöru fólk! Ekkert verið að reyna að fegra það með því að fjarlægja ör eða bletti.“

Cyanotype er yfir hundrað ára tækni þar sem eintóna myndir eru lýstar með útfjólubláu ljósi á ljósnæma efnablöndu og eftir standa bláar myndir, t.a.m. blueprints. Á myndinni er gestur á sýningu Adams í Fischershúsi á síðasta ári með eintak af verki hans. Á innfelldu myndinni er annað cyanotype-verk eftir Adam.
Frá sýningu Adams í Fischershúsi á síðasta ári.

Sýning Adams í ár snýst um afgreiðslufólk í verslunum á Hafnargötunni. Áður fyrr þekktu flestir andlit afgreiðslufólks verslana en með tilkomu vefverslana og með breyttum neysluvenjum er eins og mörg af þessum andlitum séu að verða okkur ókunn. „Sýningin í ár er líka endurtekning á verkefni sem ég vann í samstarfi við tvo aðra árið 2009. Þá mynduðum við afgreiðslufólk í litlu samfélagi í Póllandi og margir vissu ekki einu sinni að þar væru verslanir. Í ár rölti ég á milli verslana á Hafnargötu og bauð þeim sem vildu að taka þátt. Fólk varð oft svolítið hvumsa þegar ég mætti í verslanirnar og spurði af hverju þau ættu að vera með. „Af því að verslunin er hérna og ég var að bjóða þér að vera með,“ svaraði ég. Þegar upp var staðið tóku 29 verslanir þátt í sýningunni.

Ég vissi af þessum verslunum og vildi gjarnan kynnast fólkinu fyrir aftan afgreiðsluborðin. Það er þetta sem skilur mest eftir hjá mér í sambandi við svona verkefni – að fá að kynnast fólki.“

Jón Þór Ísberg, húðflúrmeistari á Raven Ink, var meðal þátttakenda í verkefninu.

Fengu næði til að kynnast Íslandi

Adam og eiginkona hans, Iwona Dereszkiewicz, fluttu til Íslands árið 2020. „Það var mjög góð tímasetning því vegna Covid gátum við í heilt ár heimsótt helstu náttúruperlur landsins og verið laus við túristana,“ segir Adam og brosir. „Árið 2021 ferðuðumst við um allt og það var algerlega magnað. Konan mín hafði komið til Íslands nokkrum sinnum áður en við fluttum hingað til að heimsækja vinafólk og hún hafði upplifað fjölmenna ferðamannastaði, að vera í troðningi og liggur við að fá regnhlífar í augað (sannleikurinn er sá að aðeins ferðamenn nota regnhlífar á Íslandi).“

Adam og eiginkona hans, Iwona Dereszkiewicz, á ferðalagi um Ísland og auðvitað í íslenskum lopapeysum.

Þessa stundina er aðalstarf Adams vefsíðugerð og grafísk hönnun og hann segir að þau hjónin kunni vel við sig hérlendis. „Ég vinn við að setja upp vefsíður, ég ver tímanum að mestu fyrir framan tölvu þar sem ég vinn ýmist við uppsetningu og viðhald á vefsíðum.“

Og hvernig gengur að læra íslensku?

„Það er erfitt, ég er að læra en fæ nánast enga æfingu þar sem ég vinn mikið einn – það er flókið að læra íslensku en ég er að reyna.“

Adam Dereszkiewicz heldur úti vefsíðu þar er hægt að sjá fjölda verka eftir hann. Slóðin er https://artadder.com/

Starfsfólk í Sambíó Keflavík.
Oddgeir Garðarsson, kaupmaður í Stapafelli.
Sara María með veggspjald af afgreiðslufólki í Mimosa.
Veggspjöldin af afgreiðslufólkinu koma einstaklega vel út.