Mynd á fermingartertuna
-hjá Ragnari bakaraRagnar bakari og eiginkona hans standa í ströngu þessa dagana við að útbúa bakkelsi fyrir fermingarveislur Suðurnesjamanna. Ragnar segist ekki vera eins önnum kafinn nú eins og á sama tíma í fyrra og telur skýringuna vera þá að fólk bjóði frekar uppá mat í veislum í ár. Ragnar útbýr hefðbundnar fermingartertur sem er skreyttar með hvítum sykurmassa, svokölluðum brúðarmassa en hann býður einnig upp á brauðtertur og minni tertur. „Við erum með litlar postulínsstyttur sem við látum ofaná terturnar ef fólk vill og einnig hefur verið vinsælt að láta mynd af fermingarbarninu á tertuna. Við útbúum þá lítið kort úr sykurmassa, límum myndina á og skrifum hamingjuóskir á kortið“ segir Ragnar. Ragnar viðurkennir að það sé ansi mikið að gera í kringum fermingarnar. „Við vinnum frameftir á kvöldin og byrjum eldsnemma á morgnana. Við ætlum að taka okkur gott páskafrí að þessu loknu, en sem betur fer hætta prestarnir að ferma á annan í páskum“, segir Ragnar um leið og hann snýr sér aftur að hrærivélinni.